Snarvitlaust veður: Skólahaldi víða aflýst

snjór í einbúablá Egilsstöðum

Skólahald fellur víða niður á Austurlandi í dag vegna veðurs. Björgunarsveitir hafa verið á ferðinni til að aðstoða fólk í vandræðum. Ekki er von á að veðrið gangi niður fyrr en aðfaranótt sunnudags.

Öllu skólahaldi hefur verði aflýst í Fellaskóla í dag og 25 ára afmælissamkomu sem halda átti síðdegis. Leikskólarnir Tjarnarskógur og Hádegishöfði á Héraði eru lokaðir sem og Egilsstaðaskóli og Hallormsstaðarskóli. Ekkert er kennt í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Kennsla fellur niður í Grunnskóla Reyðarfjarðar en á vef Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar segir að veður þar sé ekki jafn slæmt og spáð var og því kennt. Á Facebook-síðu Grunnskóla Breiðdalshrepps segir að skóla hafi „alls ekkert verið aflýst vegna veðurs enda blíða á Breiðdalsvík.“

Menningarferð Nemendafélags Verkmenntaskóla Austurlands til Akureyrar, sem fara átti um helgina, hefur verið aflýst. Nemendur sunnan Oddsskarðs hafa ekki komist í skólann í dag en annars er kennt þar því skjól er fyrir norðanáttinni á Norðfirði.

Á Vopnafirði var búið að boða vetrarfrí um helgina í skólanum og því engin kennsla hvort sem er.

Allir fjallvegir á Austurlandi eru ófærir og víða ófært. Fólk hefur ýmist ekki komist til vinnu eða heim úr henni, til dæmis milli Reyðarfjarðar, Norðfjarðar, Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þungfært er og stórhríð víða á láglendi.

Öllu flugi austur hefur verið aflýst. Veðurstofa Íslands hefur gefið út viðvörun þar sem varað er við norðan vonskuveðri á landinu öllu næsta sólarhringinn. Lægja fari upp úr hádegi á morgun en áfram verði þó hvasst fram á kvöld. Spáð er 20-28 m/s vindhraða og vindhviðum allt að 55 m/s við fjöll með talsverðri ofankomu á Austurlandi. Vindhraði mældist 70 m/s í hviðum í Hamarsfirði í gærkvöldi.

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði var í nótt kölluð út til að tryggja báta sem voru farnir að losna í höfninni. Á Egilsstöðum eru björgunarsveitin á rúntinum til að aðstoða þá sem eiga í vandræðum.

Í Fjarðabyggð var bæjarstjórnarfundur samkvæmt áætlun í gær. Notast var við fjarfundabúnað. Bæjarstjórinn segir þetta minna enn frekar á nauðsyn nýrra Norðfjarðarganga. Á dagskrá var fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2013.

Póstflutningar hafa víða farið úr skorðum á Austurlandi vegna veðursins. Í tilkynningu frá Íslandspósti er beðist velvirðingar á þessu og sagt að póstdreifing fari af stað um leið og veðrinu sloti.

Við hvetjum lesendur til að senda okkur myndir og deila veðursögum sínum á síðu Austurfréttar á Facebookeða heyra í okkur á Twitter undir auðkenninu #ovedur.

 

ovedur_02112012_2_web.jpgovedur_02112012_4_web.jpgovedur_02112012_3_web.jpg

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.