María Hjálmars: Allt landið undir í millilandaflugi frá Egilsstöðum

maria hjalmars feb14María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir allt Ísland vera markaðssvæði mögulegs millilandaflugs um Egilsstaðaflugvöll. Hún telur ýmsa möguleika vera fyrir hendi varðandi slíkt flug en til að það komist á og viðhaldist þurfi innviðirnir að vera í lagi.

Þetta kom fram í máli Maríu á fyrirlestri sem hún hélt fyrir aðila í ferðaþjónustu á Austurlandi í síðustu viku. María kom til starfa hjá Austurbrú síðastliðið haust og hefur fyrst og fremst unnið að markaðssetningu flugvallarins.

„Það sem náðst hefur eru góð sambönd og samvinna við hagsmunaaðila," segir María um árangurinn undanfarna mánuði.

Hún segir ýmsa möguleika í boði í gegnum flugvöllinn, til dæmis fragtflug sem gæt hentað fyrirtækjum á svæðinu frá Siglufirði í norðri til Hornafjarðar í suðri. Í mánuðinum er fyrirhugaður fundir með sjávarútvegsfyrirtækjum á svæðinu.

Leiguflug er annar möguleiki og María segir hann í fullri skoðun. „Það eru til leiguflugfélög hér og þau eru áhugasöm," sagði hún.

Hún sagði miklu máli skipta að vera í góðu samstarfi við ferðaskrifstofur til að fá fólk í flugin. Sums staðar hefðu menn farið þá leið að kaupa ákveðin flugfélög inn en það hefði almennt endað illa.

Með vaxandi ferðamannastraumi til Íslands eykst umræðan um dreifingu þeirra um landið. „Það eru margir ferðamenn sem koma til Íslands og vita ekki alveg hvað þeir ætla að gera. Ef leiðinlegt er í Reykjavík gætu þeir komið austur og það þyrfti að vera góður möguleiki fyrir þá að stökka austur," sagði María og bætti við að innanlandsflug væri þægilegra hér heldur en víða annars staðar þar sem menn þyrftu ekki í öryggisleit.

Þá sé vaxandi eftirspurn frá Asíu um ferðir með fleiri en einum áfangastað og þar gæti opnast tækifæri til samvinnu við Grænland.

Þá var ræddur möguleiki á Ameríkuflugi Wow Air sem ekki tókst að koma á frá Keflavík. Eigandi flugfélagsins, Skúli Mogensen, hefur lýst yfir velvilja í garð Egilsstaðaflugvallar og Austurlands.

„Það er allt landið undir ef við ætlum í millilandaflug en innviðirnir verða að vera í lagi," sagði María.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.