Orkumálinn 2024

Skoðar hverja einustu á í Borgarfirði

sonar2014 0003 webFósturvísatalningamaðurinn Gunnar Björnsson hefur vart komið heim til sín í rúman mánuð. Hann kemur víða við á um tveggja vikna ferð sinni um Austurland.

„Ég taldi fósturvísa í hveri einustu á í Borgarfirði, annað árið í röð," segir Gunnar sem býr á Sandfellshaga í Öxarfirði.

Hann byrjaði að telja fósturvísa í lok janúar og hefur síðan þvælst um Suðurland, Reykjanes og Norðurland.

Frá 24. febrúar hefur hann verið á Austurlandi, í Jökuldal, Jökulsárhlíð, Hjaltastaðaþinghá, Eiðaþinghá, Völlum, Fljótsdal og Borgarfirði en talningin á svæðinu tekur um tvær vikur og eru Gunnar og aðstoðarmaður hans, Alexander Ásmundsson, að frá morgni til kvölds.

Eftir eru síðan talningar á Norðurlandi og Vesturlandi en vertíðinni lýkur í lok mars. „Ég er voðalega lítið heima í febrúar og mars. Ég vona að konan gefi. Ég reyni að vera ekki meira en tvær vikur að heiman í einu. Um daginn var ég reyndar þrjár vikur að heiman og kom svo heim í tvo daga til að fara á þorrablót."

Fósturvísarnir eru taldir til að bændur viti þegar líður að sauðburði með hversu mörg lömb hver ær gengur. Það hefur í för með sér umtalsverðan vinnusparnað fyrir bændur. Það styttir vöku, menn geta gert áætlanir til að venja undir og hægt er að henda þeim út sem eru geldar og spara pláss í fjárhúsum.

„Það eru alltaf fleiri sem eru að nýta sér þessa þjónustu því vinnusparnaðurinn og þægindin eru það mikil."

Sex hópar gera út á fósturvísatalningu í sauðfé á landinu. Gunnar segist álíta það passlegan fjölda en hann hefur þjálfað marga af hinum talningamönnunum.

„Að giska rétt," segir hann og hlær þegar hann er spurður að því hvert sé leyndarmálið á að geta vera góður í fósturvísatalningu. „Þetta snýst um einbeitingu," en bætir við að talningin sé ekki óskeikul.

„Það alltaf undarlegt ef maður gerði ekki einhver mistök þegar maður rennir 300 kindum í gegn á klukkutíma."

Gunnar segist hafa gaman af því að þvælast á milli sveita. „Maður hittir svo marga. Sums staðar fara menn á milli bæja og hjálpast að. Það flýtir fyrir vinnunni og er skemmtilegra."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.