52 milljónir austur í sjö verkefni: Mest í Skipasmíðastöð Austurlands

veghledslur1 webUm fjórðungur þess fjármagns sem forsætisráðuneytið hefur úthlutað til verkefna sem tengjast húsafriðun, vernd sögulegra og menningartengdra byggða, fornleifa og málefna græna hagkerfisins á þessu kjörtímabili hafa fallið í skaut austfirskra verkefna. Alls koma 52 milljónir austur í sjö verkefni.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar.

Hæsti styrkurinn fer til Tækniminjasafns Austurlands, 15 milljónir króna, til viðgerðar á ytra byrði Skipasmíðastöðvar Austurlands. Viðgerð á húsinu hefur staðið í nokkurn tíma og var hún styrkt um alls 13,5 milljónir króna af fjárlaganefnd á árunum 2005-2010. Vonast er til að hægt verði að ljúka viðgerðinni í ár.

Tveir tíu milljóna króna styrkir eru veittir austur. Annan fær eyðibýlaverkefni Skógræktar ríkisins og er hann ætlaður í að gera upp Jórvík í Breiðdal en til stendur að bjóða íslenskum og erlendum ferðamönnum að leigja það til sumardvalar í framtíðinni.

Bærinn er sagður mikilvægt dæmi um staðbundna húsagerð í sveit á suðausturhorni landsins. Viðgerð hófst árið 2011 og ráðgert er að þeim ljúki í ár.

Hitt tíu milljóna verkefnið er endurbygging Lúðvíkshúss í Neskaupstað. Húsið er timburhús frá árinu 1881 sem flutt var að Nesgötu 20 árið 1885. Húsið er elsta húsið í Neskaupstað og friðað.

Tveimur milljónum í viðbót er einnig ráðstafað til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar til endurbyggingar steinsteyptrar fjárréttar í Norðfjarðarsveit. Réttin er ein fárra steinsteyptra fjárrétta sem enn er í notkun en viðgerð á henni hófst fyrir þremur árum.

Þá er sex milljónum króna ráðstafað til Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði til viðgerða á bröggum safnsins.

Tvö verkefni á Fljótsdalshéraði fá styrki. Fimm milljónum er veitt til Fljótsdalshéraðs til skráningar veghleðslna, varða og annarra minja og til viðgerða á hleðslum. Sérstaklega eru tilteknar viðgerðir á friðuðum veghleðslum á Breiðdalsheiði sem líklega eru að stofni til um 150 ára gamlar.

Þá er fjórum milljónum ráðstafað til Þjóðminjasafnsins til viðgerðar og viðhalds á torfbænum að Galtastöðum fram í Hróarstungu. Bærinn er einn fárra alþýðubæja sem varðveist hafa frá nítjándu öld og er varðveislugildi hans sagt einstakt.

Féð er tekið af tveimur liðum í fjárlögum, annars vegar atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa og hins vegar græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa.

Úthlutun styrkjanna hefur verið töluvert gagnrýnd fyrir að hafa ekki verið auglýst þannig allir gætu sótt um. Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði, hefur skýrt frá því að hann svarað fyrrispurn forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um áhugaverð verkefni í gegnum SMS og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sendi inn styrkumsóknir eftir fund hjá Framsóknarflokknum þar sem ráðherrann hvatti menn til að kynna sér möguleikana á styrkjum.

Í svari forsætisráðuneytisins til Brynhildar er ekki svarað hvernig styrkirnir hafi verið auglýstir en tekið fram að faglegt mat hafi verið unnið á verkefnunum í ráðuneytinu í samráði við Minjastofnun Íslands, formann húsafriðunarnefndar og Þjóðminjasafn Íslands.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar ítrekaði Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, að um væri að ræða fjárlagalið en ekki sjóð. Þá sé ekki að skylt að auglýsa heldur sé fjárlagaliðurinn hugsaður til að geta tekist á við átaksverkefni undir merkjum atvinnuþróunar.

Í grunninn sé um að ræða fjárheimild frá árinu 2012 sem tilheyrði ráðherranefnd um atvinnumál sem í sátu forsætis- og atvinnuvegaráðherra en tillögur að verkefnum komu í gegnum atvinnuvegaráðuneytið. Við ríkisstjórnarskipti var þessu breytt þannig að fjárlagaliðurinn færðist beint undir forsætisráðherra.

Minjastofnun sér um samningagerð og eftirlit með verkunum.

Í svari ráðuneytisins er einnig reynt að svara hvers konar atvinna skapist af verkefnunum. Í tilfelli austfirsku verkefnanna er í öllum tilfellum nefnt að iðnaðarmenn fái vinnu. Einnig eru nefnd störf sem verði til eftir að framkvæmdunum verði lokið, svo sem í ferðaþjónustu og menningu.

Veghleðslur á Breiðdalsheiði. Mynd: Lárus Sigurðsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.