Icelandair skoðar millilandaflug frá Egilsstöðum

flug flugfelagislands egsflugvIcelandair skoðar möguleikann á að bjóða upp á millilandaflug frá Egilsstaðaflugvelli sumarið 2015. Farþegar gætu þá innritað sig í flug Flugfélags Íslands á Egilsstöðum sem flytti þá til Keflavíkur og þar gætu menn farið vandræðalítið á milli hliða. Ekkert er þó ákveðið um verkefnið.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar var hugmyndin rædd á fundi fulltrúa Icelandair, ferðaþjónustuaðila á Austurlandi og fulltrúa sveitarfélaga á Egilsstöðum sem haldinn var að frumkvæði Austurbrúar fyrir helgi.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfesti í svari við fyrirspurn Austurfréttar að á fundinum hefði verið „varpað fram ýmsum hugmyndum og þær ræddar." Hann ítrekaði þó að af hálfu Icelandair hefðu „engar ákvarðanir verið teknar."

Hugmyndin er sú að Flugfélag Íslands ferji farþega á milli Keflavíkur og Egilsstaða. Viðskiptavinir Icelandair geta þá keypt beint flug erlendis frá til Egilsstaða og öfugt. Innritun gæti orðið á Egilsstöðum og menn ekki þurft að hafa neinar áhyggjur af farangri sínum í Keflavík.

Í boði yrðu vikulegar ferðir yfir sumartímann. Verkefnið yrði tilraunaverkefni og fjárhagsleg áhætta af því hjá Icelandair.

Sambærilegt fyrirkomulag hefur verið í boði til og frá Akureyri. Uppbygging þess hefur gengið hægt en fulltrúar Icelandair munu hafa lýst meiri bjartsýni um Egilsstaðaflugið þar sem ólíklegra sé að menn keyri á milli Keflavíkur og Egilsstaða.

Beint flug er ekki í boði í bili en sá möguleiki kann að vera skoðaður frekar árið 2018 þegar von er á nýjum flugvélum í flota Icelandair. Þá sé flugfélagið til í að skoða lengra ferðatímabil komist á gott samstarf um nýtingu flugsins við ferðaskrifstofur.

Sem fyrr segir liggur enginn ákvörðun fyrir enn en von er á henni síðar í vor.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.