Arnbjörg Sveins: Samgöngur við Austurland eiga að vera í lagi

arnbjorg sveins des13Seyðfirðingar eru líkt og fleiri Austfirðingar óánægðir með þá ákvörðun Vegagerðarinnar að fækka tímabundið mokstursdögum á Möðrudalsöræfum úr sex í tvo. Forseti bæjarstjórnar segir óásættanlegt að dregið sé úr þjónustu við samgönguæð sem skipti fjórðunginn miklu máli.

„Við teljum að samgöngur eigi að vera í lagi hér á Austurlandi og þar með tengingar við aðra landshluta. Tengingin norður skiptir Austfirðinga miklu máli þannig við teljum óásættanlegt að dregið sé verulega úr þeirri þjónustu," segir Arnbjörg.

Bæjarráð Seyðisfjarðar samþykkti á fundi í sínum í gær bókun þar sem brugðist var við tilkynningu Vegagerðarinnar að vegna mikilla snjóa yrðu Möðrudalsöræfi aðeins rudd tvisvar í viku.

Í ályktuninni er minnt á „óviðunandi einangrun kaupstaðarins vegna ófærðar á Fjarðarheiði sem með köflum varir dögum saman."

Skorað er á stjórnvöld að bregðast við ástandinu með að auka fjárheimildir til Vegagerðarinnar og tryggi að stofnunin hafi fé til að endurnýja búnað og halda úti vetrarþjónustu samkvæmt skilgreindu þjónustustigi.

Arnbjörn segir að þjónustuskerðingin á Möðrudalsöræfum hafi töluverð áhrif á atvinnulíf og bæjarbúa á Seyðisfirði.

„Hún hefur áhrif á fólk og fyrirtæki og námsmenn. Við getum nefnt að fólk sækir heilbrigðisþjónustu á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í miklu mæli og síðan eru fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu á milli landshluta."

Eitt þeirra er Austfar en sjávarútvegsfyrirtæki af Norður- og Norðausturlandi nýta siglingar Norrænu til að koma afurðum sínum á markaði.

„Þetta er sú leið sem menn hafa notað mikið og ef henni er lokað hefur það alvarleg áhrif bæði á fyrirtæki í öðrum landshlutum sem og reksturinn á þessari leið," segir Arnbjörg.

Í ályktun bæjarráðsins eru samgönguyfirvöld hvött til að koma austur „núþegar og kynna sér aðstæður af eigin raun." Einnig er ítrekað boð til samgöngunefndar Alþingis og innanríkisráðherra um að heimsækja Seyðisfjörð og ræða við fulltrúa þaðan um samgöngumál.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.