Íbúar í Merki sambandslausir í um sólarhring: Það kann enginn lengur að senda reykmerki

stefan olason merki sigadÍbúar í Merki á Jökuldal voru sambandslausir við umheiminn í tæpan sólarhring eftir að langbylgjusendir bilaði á Eiðum. Heimilisfólk furðar sig á því af hverju ekki sé hægt að efla fjarskiptasamband við bæinn.

„Auðvitað getur allt bilað en maður furðar sig á því árið 2014 að ekki sé hægt að koma FM-sambandi við svæðið," segir Stefán Ólason, bóndi í Merki.

FM-útvarpssendingar hafa aldrei náðst þar þannig að heimilisfólkið treystir á langbylgjusendingar frá Eiðum. Þeim virðist hafa slegið út eftir rafmagnstruflanir á Héraði í gær.

„Þeim sló út með rafmagninu í gær og komu inn aftur um hádegið í dag," segir Stefán.

Þá hefur símasamband, hvort sem er í farsíma eða heimasíma, verið stopult eftir miklar rafmagnstruflanir sem urðu fyrir tæpum þremur vikum. „Það kann enginn lengur að senda reykmerki," segir Stefán.

Hann segist þó mest undrandi að ekki sé hægt að tryggja almennilegar útvarpssendingar. „Það er komið árið 2014 og menn geta ekki hlustað á útvarp. Það er fremur undarlegt.

Það er talað um að þetta sé öryggisatriði og að unga fólkið eigi að setjast að í sveitunum en það hefur ekki annað en sinfóníusargið á gömlu gufunni."

Mynd: Sigurður Aðalsteinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.