Vegagerðin fækkar mokstursdögum á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði úr sex í tvo

fjardarheidi 30012013 0006 webVegagerðin ætlar að fækka mokstursdögum á Möðrudalsöræfum vegna mikils fannfergis þar. Illa gengur að halda veginum opnum þar sem snjógöng hafa hlaðist upp. Til greina kemur að loka Oddsskarði og Fjarðarheiði á afmörkuðum tímum í öryggisskyni.

Til stendur að fækka mokstursdögum á Möðrudalsöræfum, frá Mývatni til Skjöldólfsstaða á Jökuldal, og á Vopnafjarðarheiði úr sex í tvo. Í stað þess að moka alla daga nema laugardaga verður aðeins rutt á þriðjudögum og föstudögum.

Til stóð að breytingin tæki gildi strax á morgun en Vegagerðin tilkynnti í morgun að henni væri frestað fram á mánudag.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir það hafa verið gert í ljósi mikilla viðbragða þar sem skammur fyrirvari hafi verið meðal þess sem gagnrýnt var.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að ráðstöfunin sé tekin í ljósi þess að víða séu komin djúp snjógöng sem erfitt sé að halda opnum. Kóf sé mikið í göngunum og skyggni slæmt ef vind hreyfir.

„Við hvern mokstur hleðst upp snjór við hlið vegar, göngin dýpka og því verður erfiðara að opna aftur við næsta mokstur og þess vegna nauðsynlegt að fækka mokstursdögum tímabundið til að gera það mögulegt að halda leiðinni opinni eins og hægt er við þessar aðstæður.

Gert er ráð fyrir að vegum verði lokað yfir nóttina enda getur á skömmum tíma fennt í snjógöng ef hreyfir vind. Reikna má með að lokað verði frá 19:30 til morguns og eins má búast við að vegirnir geti lokast alveg nema þá daga sem rutt er."

Í tilkynningunni er einnig tekið fram að til takmarkana getið komið á Fjarðarheiði og Oddsskarði þar sem einnig hafa safnast upp mikil snjógöng.

Pétur segir að ekki standi til að fækka þar mokstursdögum. Áhyggjurnar snúist um það ástand sem geti skapast á nóttunni þegar ekki er þjónusta og kóf í göngunum.

„Því er hugsanlegt að til þess komi að loka þessum leiðum á nóttunni en ekki stendur til að fækka mokstursdögum," segir í svari Péturs við fyrirspurn Austurfréttar.

Ákvarðanirnar eru ótímabundnar en ástandið verður metið að nýju daglega. Pétur segir vegfarendur almennt sýna þeim aðstæðum sem kalli á þetta verklag skilning.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.