Síldarvinnslan staðfestir kaupin á Malene S

malene s kh webSíldarvinnslan hefur staðfest kaup á norska uppsjávarveiðiskipinu Melene S sem hljóta mun nafnið Börkur. Skipið kom til hafnar í Neskaupstað klukkan tíu mínútur yfir ellefu í morgun en formleg skipti á skipunum fara fram á morgun.

Austurfrétt greindi fyrst frá kaupunum þann 4. febrúar síðastliðinn en forsvarsmenn Síldarvinnslunnar vildu ekki staðfesta heimildir fréttamiðilsins.

Í morgun var hins vegar gefin út yfirlýsing á vef fyrirtækisins þar sem staðfest er að Malene S hljóti nafnið Börkur NK 122 og skiptin fari fram á morgun. Núverandi Börkur gengur upp í kaupin.

Haft er eftir Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra, að verið sé að leita að hagkvæmari skipum til að hámarka verðmæti aflaheimilda félagsins.

„Á síðastliðnum mánuðum erum við búnir að skipta út báðum uppsjávarskipum okkar Berki og Beiti. Við vorum vissulega með góð skip en stærsti munurinn í þessum skiptum felst í því að við erum að fá mun hagkvæmari skip hvað snertir olíunotkun og vonast ég til að sjá allt að þriðjungi minni olíunotkun á nýju skipunum.

Auk minni orkunotkunar mun aukin burðargeta einnig nýtast okkur vel við veiðar á kolmunna og til að hjálpa okkur þegar loðnukvótar verða stórir.

Skipið mun styðja við enn frekari uppbyggingu á uppsjávarfrystingu okkar. Það mun styðja við þá stefnum okkar að auka verðmæti þeirra aflaheimilda sem við höfum aðgang að með minni tilkostnaði".

Malene S var smíðað í Tyrklandi og afhent Skårungen AS í Björgvin í Noregi í desember 2012. Skipið er 3588 tonn að stærð, 80,3 metrar að lengd og 17 á breidd.

Aðalvél þess er 4320 KW af gerðinni MAK, auk þess er skipið búið tveimur ljósavélum 1760 KW og 515 KW. Skipið er búið svo kölluðum „Diesel Electric"-búnaði sem þýðir að hægt er að keyra skipið eingöngu með ljósavél og kúpla út aðalvélinni.

Í frétt Síldarvinnslunnar segir að nýja skipið verði „á meðal best búnu og glæsilegustu fiskiskipa íslenska flotans." Í áhöfn skipsins verða 7-8 manns á trollveiðum og 10-11 á nótaveiðum.

Núverandi Börkur er smíðaður árið 2000 en Síldarvinnslan keypti hann í febrúar 2012.

Malene S á milli Beitis og Polar Amaroq í Norðfjarðarhöfn. Mynd: Kristín Hávarðsdóttir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.