Gengið á undan björgunarsveitarbílum yfir Oddsskarð - Myndir

fjardarheidi1 webEkki tókst að opna veginn yfir Oddsskarð í dag eins og vonir stóðu til en tekist hefur að halda Fjarðarheiði jeppafærri. Ganga varð á undan björgunarsveitarbílum sem brutust yfir skarðið með heilbrigðisstarfsmenn.

Lagt var af  stað frá Norðfirði á ellefta tímanum í morgun en vaktaskipti voru á Fjórðungssjúkrahúsinu og koma þurfti starfsmönnum í flug á Egilsstöðum.

Starfsfólkinu var fylgt yfir á Eskifjörð og komið þangað um klukkan eitt. Þar voru sjómenn sem biðu þess að komast um borð í Bjart. Þeim var fylgt strax yfir til baka en björgunarsveitin fór aðra ferð seinni partinn til að sækja lækna sem voru að koma í stað þeirra sem fóru um morguninn.

„Fyrri ferðin gekk hörmulega. Þótt snjóblásari væri á undan okkur mest alla leiðina var svo blindað að við þurftum að labba á undan bílunum stóran hluta leiðarinnar," segir björgunarsveitarmaðurinn Ísak Fannar Sigurðsson.

Seinni ferðin gekk betur. Vind hafði þá lægt en Ísak segir að mjög mikill snjór sé á Oddsskarði. Þá bætti ekki úr skák að bílar voru fastir á skarðinu.

„Oddsskarðið var hræðilegt og kolófært," segir Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingur sem var farþegi í fyrri ferðinni.

„Það eru 1-2 metra há snjógöng alla leiðina og ég hugsa að skaflarnir nái 4-6 metrum þar sem þeir eru hæstir. Við sáum ekkert út. Það kom stanslaust snjór á rúðuna."

Mokstursmenn fóru af stað klukkan fimm í morgun en gáfust upp um hádegið við að reyna að opna. „Það gekk illa og við sáum ekki neitt. Vindhviðurnar voru 28 m/s og það skóf strax í aftur í snjógöngunum. Það hefði enginn getað nýtt sér það þótt við hefðum opnað," segir Sveinn Valtýsson hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.

Aðstæður á Fjarðarheiði eru um margt svipaðar, 4-6 metra djúp snjógöng á löngum köflum. Þeim vegi hefur þó tekist að halda jeppafærum í dag.

Ófært er einnig til Vopnafjarðar en mokstri var hætt á Háreksstaðaleið um hádegið. Til Borgarfjarðar eystri hefur verið fært en þæfingur yfir helgina.

Myndir 1-4 af Fjarðarheiði: Sveinn Einarsson og Björgunarsveitin Ísólfur.
Myndir 5-10 af Oddsskarði: Ísak Fannar Sigurðsson



fjardarheidi2 webfjardarheidi3 webfjardarheidi4 weboddsskard2oddsskard3oddsskard4oddsskard5oddsskard7oddsskard8

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.