Stubbasmiðja í Sköpunarsetrinu: Stöðfirðingar eru handlagið fólk

stubbasmidja stfj 0002 webLeikfangaverksmiðjan Stubbur hefur verið flutt austur á Stöðvarfjörð í gamla frystihúsið þar sem rekin er Sköpunarmiðstöð. Verkefnastjóri miðstöðvarinnar vonast til að hægt verði að byggja frekari atvinnu utan um leikfangaframleiðsluna.

Leikfangasmiðurinn George Hollanders, sem skapað hefur Stubbaleikföngin, fylgdi verksmiðjunni austur og kenndi heimamönnum réttu handtökin fyrir skemmstu. Haldið var viku langt námskeið þar sem áhugasömum gafst tækifæri til að læra listina.

„Þetta hefur gengið vonum framar. Það hefur verið mjög gaman að vinna með fólkinu og ég er í skýjunum eftir vikuna," sagði George í samtali við Austurfrétt.

Hann hefur hannað og þróað leikföngin í tuttugu ár en segir að nú hafi verið kominn tími til að breyta til. „Ég hef verið að færa út kvíarnar síðustu ár og haft mikið við að gera við að smíða náttúrulega leikvelli. Ég hef eiginlega ekki lengur tíma til að sinna leikföngunum."

Því fór hann að horfa í kringum sig eftir arftaka. Hann segist hafa frétt af Sköpunarmiðstöðinni úr ýmsum áttum og vel hafi verið af henni og fólkinu þar látið. Það hafi reynst rétt.

Rósa Valtingojer, verkefnisstjóri í Sköpunarmiðstöðinni, segir mikinn feng í subbasmiðjunni. Hugsunin á bakvið leikföngin, sem smíðuð alfarið úr íslenskum við, falli vel inn í hugmyndafræði miðstöðvarinnar um sjálfbærni. Þá sé hún góður grunnur fyrir frekari atvinnusköpun.

„Það hefur alltaf verið markmið okkar frá því við byrjuðum hér að skapa atvinnu á staðnum. Hér skortir sárlega atvinnu. Við höfum séð fyrir okkur að vera með ýmsan smáiðnað sem getur vaxið og dafnað og leikfangasmiðjan er þar fyrst.

Við sjáum fyrir okkur að smíðaverkstæðið geti þjónað ýmsum tilgangi, til dæmis verið vöruþróunarverkstæði fyrir hönnuði.

Við ætlum að reyna að hafa að minnsta kosti 1-2 manns í vinnu við leikfangaframleiðsluna. Við ætlum að taka þetta skref fyrir skref, það er erfitt að sjá nákvæmlega hvernig hlutirnir verða fyrir sér í svona skapandi ferli."

George segir þjálfunarvikuna hafa verið nýtta í að breiða út hugmyndafræðina og deila þekkingunni. Út frá henni sé hægt að þróa frekari framleiðslu svo sem á húsgögnum, minjagripum og fjölbreyttari leikföngum.

Rósa tekur undir orð George um að fyrsta vikan hafi gengið vel. „Fólk hefur mikinn á huga á þessu. Það er mikil hefð fyrir handverki hér og á Stöðvarfirði býr handlagið fólk."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.