Verklag endurskoðað eftir úrskurð Persónuverndar

baejarskrifstofur egilsstodum 3Reglur og verklag um fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs verða endurskoðuð í kjölfar úrskurðar Persónuverndar sem taldi þjónustuna hafa brotið lög um persónuvernd við afgreiðslu á umsókn um fjárhagsaðstoð. Sveitarfélagið telur að í úrskurði Persónuverndar felist þó ekki niðurstaða um að óheimilt sé að neita einstaklingum í neyslu um fjárhagsaðstoð.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem sveitarfélagið sendi frá sér í dag. Persónuvernd opinberaði á þriðjudag úrskurð sinn í máli umsækjenda um fjárhagsaðstoð þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að félagsþjónustunni hafi verið óheimilt að krefja einstaklinginn um þvagsýni til að afsanna að hann væri í neyslu. Viðkomandi neitaði að afhenda sýni og var í kjölfarið synjað um fjárhagsaðstoð.

Í tilkynningunni er bent á úrskurðurinn taki ekki á heimild sveitarfélagsins til að synja þeim sem eru í neyslu um fjárhagsaðstoð. Aðeins sé komist að þeirri niðurstöðu að félagsþjónustan geti ekki krafið menn um lífsýni til að sanna, eða afsanna, þann grun.

Í tilkynningunni er því einnig haldið fram að það ráðuneyti sem fari með málefni um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi staðfest reglur félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs um fjárhagsaðstoð.

Þar segir að lög um félagsþjónustu geri ráð fyrir því að ákvarðanir félagsþjónustu séu bæði til þess fallnar að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

Því er haldið fram að framkvæmd félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs sé í samræmi við starfshætti annarra stofnana á sama sviði.

Ákvæði um að neita þeim sem eru í neyslu áfengis eða annarra vímuefna um fjárhagsaðstoð eru víðar til staðar, svo sem hjá Akureyrarbæ. Bæði þar og á Fljótsdalshéraði er hins vegar boðið upp á aðstoð við þá sem vilja fara í meðferð. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst eru fordæmi fyrir því hjá fleiri sveitarfélögum að biðja um þvagsýni.

„Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs mun nú fara yfir úrskurð Persónuverndar með tilliti til rökstuðnings stofnunarinnar og endurskoða í kjölfarið reglur og verklag."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.