Aldrei orðið vitni að jafn persónulegum árásum formanna einstakra stéttarfélaga á forseta ASÍ

sverrir mar albertssonFramkvæmdastjóri AFLs – starfsgreinafélags segir það óþolandi að foringjar innan Alþýðusambandsins sitji hljóðir hjá þegar nafn þess og æra forsetans sé dregin niður í svaðið. Hann segir forsetann þurfa að sitja undir linnulausum persónulegum árásum þegar hann sé að verja stefnu sem hreyfingin hafi mótað og samþykkt.

Þetta ritar framkvæmdastjórinn, Sverrir Mar Albertsson, í ítarlegri grein í Austurglugganum um stöðuna í kjaraviðræðum sem kemur út á morgun. Hann tekur þar meðal annars til varna fyrir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, sem sætt hefur harði gagnrýni undanfarin misseri, einkum eftir að skrifað var undir nýjan kjarasamning sem síðan var felldur í síðustu viku.

Sverrir bendir á að þótt Gylfi komi fram fyrir hönd ASÍ sé hugmyndafræðin ekki hans eigin. Stefnumótunin byggi á ályktunum þinga ASÍ og „mikilli innri vinnu aðildarfélaga" sem í taki „hundruð óbreytts launafólks."

„En einhvern veginn hefur óvildarmönnum hreyfingarinnar og þar með launafólks tekist að persónugera öll mál Alþýðusambandsins í Gylfa Arnbjörnssyni forseta og eftir linnulausan róg og persónuníð undangenginna ára þurfa öll mál hreyfingarinnar að sækja verulega á brattann."

Hann segir að sífelldar árásir á forsetann og sambandið í heild hafi bæði skaðað ímynd ASÍ og almenns launafólks. „Bloggarar sem sumir hverjir voru ótýndir braskarar og fjárglæframenn fyrir hrun og töpuðu sínu þar hafa ítrekað farið með himinskautum í málflutningi sínum."

Sverrir, sem með hléum hefur starfað innan ASÍ frá árinu 1985, segist aldrei hafa orðið vitni að „jafn rætinni umræðu og síðustu misseri.

Ég veit ekki til að forystumenn einstakra stéttarfélaga hafi nokkurn tímann ráðist á jafn persónulegan hátt að forseta sambandsins og við höfum séð að undanförnu.

Það er og verulegt áhyggjuefni að aðrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar skuli sitja hljóðir hjá þegar æra forsetans og nafn Alþýðusambandsins eru dregin í forina af leigupennum og þeim innan hreyfingar sem líður best baðandi sig í aðdáun þeirra sem líkar skeleggur málflutningur hvort heldur innistæða er fyrir honum eða ekki."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.