Páll Björgvin: Þetta svæði verður valið til að þjónusta olíuleit

studlar landsnet 0005 webBæjarstjóri Fjarðabyggðar er fullviss um að sveitarfélagið verði í framtíðinni miðstöð fyrir olíuleit á Drekasvæðinu. Til að af því megi verða þarf þjónusta, eins og afhending raforku, að vera í góðu lagi.

„Við þurfum meiri raforku inn á Austurland og það er gott að heyra að unnið sé í þeim málum. Hún má ekki vera hamlandi í framtíðinni því þetta svæði verður valið til að taka á móti því sem snýr að þjónustu við olíuleit á Drekasvæðinu í framtíðinni."

Þetta sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, þegar stærra og endurbætt tengivirki Landsnets á Stuðlum við Reyðarfjörð var tekið í notkun í síðustu viku.

Það var Páll Björgvin sem ýtti á rofann sem hleypti spennunni á. Aðalhvatinn að nýju tengivirki og tvöföldun á spennu á línunni sem liggur frá Stuðlum yfir að Hryggstekk í Skriðdal er raforkuvæðing fiskimjölsverksmiðja síðustu misseri.

Páll segist þess þó sannfærður um að fleiri atvinnutækifæri bíði handan við hornið. „Við vitum að hér verður mjög öflug og hafsækin starfsemi. Atvinna og atvinnutækifæri eiga eftir að aukast enn frekar í tengslum við olíuleit."

Með stækkuninni eykst flutningsgeta og áreiðanleiki svæðisflutningskerfisins á Austfjörðum en meginflutningskerfið verður áfram takmarkað þar sem byggðalínan er fulllestuð.

Framkvæmdir hófust á Stuðlum í júní 2013. Launafl sá um byggingu tengivirkisins en Rafeyri setti upp rafbúnað. Kostnaður við verkið er áætlaður um 400 milljónir króna.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.