Austurför styrkt af Tækniþróunarsjóði: Ætlum að koma Austurlandi á kortið

austurfor magga heidur inga webFerðaþjónustufyrirtækið Austurför hlaut nýverið styrk úr Tækniþróunarsjóði til markaðssetningar á vefnum traveleast.is. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir markmiðið að byggja upp öfluga ferðaskrifstofu sem auglýst geti Austurland undir einu nafni.

Austurför sótti um tíu milljóna króna styrk. Endanleg upphæð er ákveðin þegar skrifað er undir samning á milli þeirra og RANNÍS, sem heldur utan um sjóðinn, en búast má við að upphæðin verði nokkurn vegin sú sem sótt var um.

„Við ætlum sannarlega að koma Austurlandi á kortið. Markmið okkar hafa alltaf verið að verða umfangsmesta ferða- og viðburðaskrifstofa Austurlands með því að markaðssetja Austurland undir einu nafni," segir Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Austurfarar.

Aðalmiðstöð Austurfarar er vefurinn traveleast.is en þar er hægt að bóka fjölbreyttar ferðir á Austurlandi og nálgast upplýsingar um flesta þá þjónustu sem ferðalangar þurfa á að halda.

„Litlu aðilarnir geta ekki farið alla leið hver í sínu horni með eigin heimasíðum. Við erum með einn sterkan vef sem við þurfum að markaðssetja út á við.

Hugmyndin er að á vefnum geti fólk fengið allt í einni ferð, bæði ferðir og vörur sem tengjast þeim. Við höfum til dæmis tengt okkur við Austfirskar krásir því við viljum leyfa ferðamönnum að bragða á hreinleika Austurlands og þeim töfrum sem eru hér í gangi" segir Heiður og bætir við að sú hugmyndafræði verði nánar útvíkkuð á árinu.

Heiður segir styrkinn gera Austurför „töluvert auðveldara" að gera það sem þarf að gera til að koma vefnum á framfæri, til dæmis að sækja ferðakaupstefnur.

„Markaðssetning er í eðli sínu dýr og margt af því sem við höfum til þessa gert höfum við gert af ástríðunni fyrir Austurlandi því við viljum að fólk sjái hversu frábært svæði þetta er.

Þótt við sem búum á Austurlandi vitum hversu frábært landsvæðið er þarf að taka vörurnar sem til eru og pakka þeim inn til að geta selt ferðamönnum."

Í dag eru 2,5 stöðugildi hjá Austurför og má búast við breytingum á árinu í starfsmannafjölda með auknum umsvifum. Þar vinna auk Heiðar þær Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, markaðsstjóri og Ingibjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri en fyrirtækið er í eigu Heiðar og Magnfríðar.

Þótt þær sýni ástríðu fyrir Austurlandi er hún áunnin því þær teljast báðar í hópi „aðfluttra."
„Ég held að við höfum orðið ástfangnar af mönnunum okkar sem eru héðan og svæðinu á sama tíma," segir Heiður. „Það er annað andrúmsloft hér. Þótt ég hafi búið bæði fyrir norðan og sunnan og erlendis kom aldrei neitt annað til greina í mínum huga en að setjast að hér.

Mér finnst ferðafólk sem ekki heimsækir Austurland fara á mis. Íslendingar þekkja svæðið ekki nógu vel og verða alltaf jafn hissa þegar þeir koma og sjá hvað hér er í boði. Mín trú er að þetta sé fegursta svæði á Íslandi og þótt víðar væri leitað."

Heiður segir mögulegt að það hjálpi þeim að koma utan frá. „Kannski sjáum við svæðið öðruvísi. Maður sér ekki alltaf það sem stendur manni næst."

Mynd: Basia Gancarek-Śliwińska

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.