Austfirskir hönnuðir hljóta listamannalaun: Byr undir báða vængi

agla sigrun halla webAustfirsk hönnunarverkefni voru meðal þeirra sem fengu styrk úr launasjóði hönnuða við úthlutun listamannalauna í byrjun vikunnar. Samstarfsverkefnið IIIF var meðal þeirra sem fékk styrk en hönnun þess gengur út á að nýta austfirskt hráefni til framleiðslu á tískuvörum.

„Þessi styrkur er byr undir báða vængi fyrir okkur," segir Sigrún Halla Unnarsdóttir. Hún og Elísabet Agla Stefánsdóttir ásamt franska vöruhönnuðinum Thibaut Allgayer standa að baki IIIF sem fékk sex mánaða styrk úr launasjóði hönnuða.

IIIF kynnti sína fyrstu vörulínu í haust en í henni voru töskur og hálsmen úr hreindýraafurðum sem framleidd voru af einyrkjum á Austurlandi.

„IIIF er hugsjónaverkefni og okkar leið til að fá útrás fyrir það sem við höfum trú á og brennum fyrir. Svona vinna er alltaf eins og að halda fimm boltum á lofti í einu og styrkurinn fækkar þeim niður í fjóra," segir Sigrún og bætir því við að þau hafi fengið „virkilega góð viðbrögð" við vörulínunni í haust.

Í júlí stendur til að fara til Frakklands og vinna með CIAV sem er mennta- og fræðastofnun auk þess að eiga að baki 300 ára sögu sem glerverksmiðja.

„Þar munum við hanna og framleiða glervörulínu með innblástur frá íslenskri náttúru og hráefnum. Stefnan er svo að þessi lína verði til sölu bæði hjá söluaðilum CIAV Meisenthal í Frakklandi og hérna á Íslandi. Þetta er virkilega spennandi og við hvetjum alla til að fylgjast með glerævintýrinu."

Grafíski hönnuðurinn Guðmundur Ingi Úlfarsson fékk að auki tveggja mánaða styrk úr launasjóði hönnuða.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.