Bekkjum fækkað um tvo: Ekki lengur fjárhagslega réttlætanlegt að halda úti Hallormsstaðarskóla?

hallormsstadarskoli mai13Útlit er fyrir að kennslu í níunda og tíunda bekk í Hallormsstaðarskóla verði hætt næsta skólaár eftir að sveitarfélögin tvö sem standa að skólanum, Fljótsdalshreppur og Fljótsdalshérað, samþykktu tillögu þess efnis í vikunni. Eftir er að vinna að nánari útfærslu, svo sem í hvaða skóla nemendurnir fari.

„Það verður að ná fram verulegum sparnaði miðað við það sem er í dag á meðan ástandið er svona," sagði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs við umræður um framtíð skólans á bæjarstjórnarfundi á miðvikudagskvöld.

Ástandið sem Gunnar vísaði til er fækkun nemenda við skólann. Þeir eru um þrjátíu í vetur og útlit er fyrir að þeim haldi áfram að fækka á næstu árum.

Starfshópi, skipuðum tveimur fulltrúum Fljótsdalshéraðs og einum úr Fljótsdalshrepps sem standa til jafns að skólanum, var komið á fót síðasta vor og skilaði nýverið tillögum sínum.

Loka, minnka eða aðeins deild undir Egilsstaðaskóla?

Megintillögurnar voru þrjár. Sú fyrsta gekk út á að skólastarfi í Hallormsstaðarskóla yrði hætt og öllum börnum úr skólanum ekið í Egilsstaðaskóla. Önnur tillagan að skólinn verði starfræktur fyrir 1. – 8. bekk en eldri nemendum ekið í Egilsstaði. Skólinn verði deild í Egilsstaðaskóla með sér deildarstjóra. Þriðja tillagan gekk út á óbreytt skólastarf en skólinn yrði að deild í Egilsstaðaskóla.

Á sameiginlegum fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps varð tillaga nr. tvö ofan á.

Í bókun sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs segir að ákvörðunin sé tekin á meðan ekki sé hægt að sjá að fjárhagslega „réttlætanlegt" sé að halda úti skólastarfi á Hallormsstað með sama hætti og verið þróun miðað við íbúaþróun.

„Ég er nokkuð sátt við þessa niðurstöðu. Ég vona að þetta verði til þess að skólinn geti starfað áfram og verið með gott skólastarf enn um sinn," sagði Sigrún Blöndal, Héraðslistanum sem sæti átti í starfshópnum.

Gert er ráð fyrir að skólanefnd skólans útfæri hana frekar og undirbúi í samstarfi við nýja stjórnendur. Eftir henni verði starfað frá og með næsta skólaári.

Fljótsdælingar kalla eftir nánari útfærslum og samráði

Í bókun sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps er gert ráð fyrir frekari útfærslum á tillögum nefndarinnar. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hafa Fljótsdælingar til dæmis ekki gert við sig hvort Hallormsstaður eigi að verða deild undir Egilsstaðaskóla eða öðrum skóla á svæðinu.

Sveitarstjórnin leggur því til að skólanefnd skólans ásamt fræðslufulltrúa Fljótsdalshéraðs og skólastjórnendur vinni málið áfram og útfæri endanlega tillögu um tilhögun skólahalds. Áður verið kallað eftir umsögnum um greinargerð og tillögur starfshópsins. Endanleg tillaga verði síðan tilbúin í janúar.

Sveitarstjórnin samþykkti einnig að hefja viðræður við Fljótsdalshéraðs um breytingar á gildandi samningi um skólann sem miði að því að tryggja honum starfsumhverfi til næstu ára og þeim nemendum úr Fljótsdal sem þurfi að flytja sig úr Hallormsstaðarskóla val um skólavist í öðrum skólum á svæðinu. Samningurinn gildir til ársins 2019.

Of stuttur fyrrivari til breytinga síðasta vor

Í vor lagði skólanefnd til að Hallormsstaðarskóli yrði færður undir stjórn Egilsstaðaskóla strax í haust. Fyrirvarinn þótt hins vegar of stuttur og því var starfshópnum komið á laggirnar.

Starfshópurinn skilaði reyndar strax af sér tillögu í sumar sem gekk út á að skólinn yrði deild innan Egilsstaðaskóla með sérstakan stjórnanda og elstu tveimur bekkirnir færðir út í Egilsstaði.

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps viðurkenndi þá að vegna fækkunar nemenda væri óhjákvæmilegt annað en gera verulegar breytingar á skólastarfinu. Hún lagði hins vegar áherslu á að samráð við foreldra, starfsmenn og fleiri aðila auk þess sem tillögurnar kæmu of seint fram yfir það skólaár sem nú stendur yfir.

Foreldrar funda á sunnudag

Fljótsdælingar bentu þá einnig á að forsvarsmenn Hjallastefnunnar hefðu lýst sig reiðubúna til viðræðna og aðstoðar ef eftir því yrði leitað.

Foreldrafélag skólans hefur boðað til fundar á sunnudag klukkan 14:00 í skólanum til að ræða þýðingu breytinganna fyrir nemendur, foreldra þeirra, skólann sjálfan og nærsamfélagið.

„Það sem við gerum eða gerum ekki núna hefur mikil áhrif á framtíð barna okkar allra í samfélaginu. Einblínum á markvissa uppbyggingu og að skila öllum börnum ánægðum út í samfélagið," segir í fundarboðinu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.