1100 Austfirðingar bólusettir í dag og á morgun

Búið er að boða um 1100 Austfirðinga í bólusetningu vegna Covid-19 veirunnar í dag og á morgun. Vonast er til að þar með ljúki bólusetningu eldri en 60 ára og fólks með undirliggjandi sjúkdóma að mestu.

Á Eskifirði og Vopnafirði er verið að bólusetja 60-70 ára og fólk á aldrinum 18-65 ára með undirliggjandi sjúkdóma. Hluti hópsins er að fá sína aðra bólusetningu.

Mest er notast við bóluefni Pfizer/BioNTech en AstraZeneca hjá hluta fólks yfir sextugu auk þess sem sumir þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma fá efni frá Janssen.

Íbúar geta ekki valið um bóluefni heldur er notast við ráðleggingar og skiptingar sem embætti landlæknis hefur gefið út.

Á morgun verður bólusett á Egilsstöðum. Þar þeir sem verða sextugir í ár bóluefni AstraZeneca en fólk með undirliggjandi sjúkdóma ýmist Janssen eða Pfizer/BioNTech.

Vonast er til að í lok vikunnar verði fyrri bólusetningu 60 ára og eldri á Austurlandi, forgangshóps 6, lokið alveg og bólusetningu fólks með undirliggjandi sjúkdóma, forgangshóps 7, nær alveg lokið. Hún verður kláruð í næstu viku.

Þetta er stærsta bólusetningavika á Austurlandi til þessa. „Það er komið að því að bretta upp ermar, bókstaflega,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands en fólki er ráðlagt að mæta í stuttermabolum. „Þetta gengur vel og fólk er duglegt að mæta,“ bætir hún við.

Ekki er enn ljóst hve margir verða bólusettir í næstu viku en næstu dagar verða nýttir til að undirbúa bólusetningu forgangshóps 8 sem í eru kennarar og ákveðnir starfsmenn félagsþjónustu. Þar eru leikskólakennarar fremstir í röðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.