Ásmundur Einar: Held það verði djöfull gott að vera bóndi á Íslandi

asmundur einar dadasonMikil sóknarfæri eru í framleiðslu á mjólk og dilkakjöti á Íslandi að mati Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Útlit sé fyrir vaxandi eftirspurn eftir matvælum í heiminum og hækkandi verð. Því skipti máli að bændur hugsi fram í tímann.

„Menn eiga að framleiða eins mikið og þeir lifandi geta. Það verður markaður fyrir allar þessar vörur á næstu árum," sagði Ásmundur Einar á bændafundi á Egilsstöðum mánudagskvöld en hann fjallaði þar um stefnu stjórnvalda í landbúnaðarmálum.

Ásmundur benti á að vaxandi millistéttir í Kína og á Indlandi þýði að milljónir manna hafi meira á milli handanna en áður og sæki í annan lífsstíl. Vaxandi þurrkar í suðlægari löndum auki þrýsting á matvælaframleiðslu í norðri. „Þegar eftirspurn eykst þarna opnast aðrir markaðir á móti"

Ásmundur nefndi nýlegt dæmi um að mjólkurdufti hefði verið smyglað frá Hollandi til Kína. Þar væri slegist um alla mjólk og lítrinn af g-mjólk kostaði 700 krónur íslenskar. Því sé spáð að mjólkurneyslan þar aukist á næstu árum um það sem samsvari heildarframleiðslu Rússlands, Frakklands, Þýskalands og Bandaríkjanna. Kúabú með 12-15 þúsund kúm, sem verið sé að byggja upp, dugi ekki til.

Halda verður öllum kvígum á lífi

Við bætist aukin eftirspurn á innanlandsmarkaði en nú er svo komið að greitt er fullt verð fyrir umframmjólk.

Útflutningur á lambakjöti hefur þegar aukist og betra verð færst fyrir það á mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu. Að auki sé íslenskt lambakjöt komið inn á 30 fínustu veitingastaði Rússlands og verið sé að skoða fleiri markaði, meðal annars í Asíu.

Það sem helst veldur Ásmundi Einari áhyggjum er að framleiðslan eykst ekki nógu hratt. „Það er aukinn þrýstingur á að slakað verði á í tollvernd í tengslum við kjarasamninga frá ákveðnum hagsmunasamtökum," sagði hann og hét því að landbúnaðarráðherra myndi „ekki slaka á"

Hins vegar sé ljóst að erfitt verði að verja verndina ef framleiðslan annar ekki eftirspurn innanlands. „Það verður erfitt að verja ríkisstuðning og tollvernd ef það kemur upp mjólkurskortur fyrir þar næstu jól. Landbúnaðurinn má ekki láta það gerast," sagði Ásmundur og hvatti menn til að „halda öllum kvígum á lífi."

Engar frekari ESB viðræður án þjóðaratkvæðagreiðslu

Ásmundur Einar sagði að í þeim hagræðingaraðgerðum sem væru í gangi í ríkisfjármálum væri ekki hægt að undanskilja landbúnaðinn. Þó yrði reynt að halda stuðningi óbreyttum þótt heildarupphæðin, sem gefin er upp, væri lækkuð en hún inniheldur meðal annars lífeyrissjóðsskuldbindingar og búnaðargjald.

Þá væri framundan starfshópur sem gera myndi úttekt á búvörusamningunum með það að markmiði að auka framlegð þess fjár sem ríkið leggur í þá. „Það er alls staðar þrýstingur á að ríkisvaldið veiti sömu þjónustu en fyrir lægri upphæð."

Ásmundur Einar hét því líka að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu væri hætt. „Þessi ríkisstjórn hyggur ekki á frekari viðræður við ESB á þessu kjörtímabili. Það er alveg skýrt. Utanríkisráðherra hefur sagt að þráðurinn verði ekki upp á meðan hann er í embætti."

Von er á skýrslu um stöðu og árangur viðræðnanna á næstunni sem tekin verður fyrir á Alþingi. Ásmundur kvaðst vona að niðurstaða þingsins yrði að viðræðunum yrði hætt og þær ekki hafnar án þjóðaratkvæðagreiðslu. „Sú atkvæðagreiðsla verður ekki haldinn nema vilji sé fyrir því hjá þjóðinni að ganga í ESB," sagði Ásmundur og bætti við að það þyrfti líka „jákvæða ríkisstjórn."

Lifði á landbúnaði og geri það enn

Ásmundur kom inn á fleiri mál eins og ný náttúruverndarlög sem hann sagði að hefði verið „nauðsynlegt að afturkalla" því þau hefðu verið meingölluð. Vinna þyrfti ný lög með breiðu samstarfi. „Þar verða allir kallaðir að borðinu, ekki bara Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun."

Hann sagði einnig að hætta ætti áformum um rafstreng til Evrópu, áhrif hans gætu orðið alvarlegt fyrir landbúnaðinn.

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist Ásmundur bjartsýnn fyrir hönd íslensks landbúnaðar. „Ég hef trú á að fólk geti lifað á landbúnaði. Ég gerði það og geri enn. Menn verða samt alltaf að vera vakandi. Það segir enginn að það verði auðvelt, að menn þurfi ekki að forgangsraða eða gera eitthvað öðruvísi. Ég held samt að það verði djöfull gott að vera bóndi á Íslandi."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.