Samið um framtíð Hótel Sögu: Bankinn fær Hótel Ísland

sigurgeir sindri asmundur einar baendafundur webSamkomulag við Arion-banka um skuldir Hótels Sögu eru í höfn. Formaður Bændasamtaka Íslands segir að fulltrúar á Búnaðarþingi verði í framhaldinu að taka ákvörðun hvernig þeir vilji sjá framtíðaraðkomu samtakanna að rekstri hótelsins.

„Rekstur til margra ára var ekki nógu góður og skuldirnar hlóðust upp. Eftir hrun voru þær óbærilegar. Samningaviðræður gengu hægt en tókust," sagði Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, á bændafundi á Egilsstöðum á mánudagskvöld.

Hótel Saga ehf. var stofnað fyrir 20 árum og rekur samnefnt hótel við Hagatorg í Reykjavík auk veitingastaða þar. Félagið hefur alfarið verið í eigu Bændasamtakanna. Dótturfélag þess var Hótel Ísland í Ármúla í Reykjavík.

Samkvæmt ársreikningi ársins 2012 tapaði félagið rúmum 450 milljónum króna og skuldaði tæpa sex milljarða í árslok. Skuldir voru rúmir þrír milljarðar umfram eignir. Í skýringum með ársreikningnum sagði að Hótel Saga gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar árið 2013 nema með samningum við lánardrottna eða nýju hlutafé.

Í framsögu Sindra kom fram að Arion-banki fengi Hótel Ísland og það húsnæði sem útibú bankans á neðstu hæð Sögu við Hagatorg hefur verið í upp í skuldir.

Hann sagði rekstur hótelsins ganga vel og nýting á gistirýminu væri góð. Veitingadeildin hefði hins vegar ekki gengið nógu vel og velti upp þeirri spurningu hvort eðlilegt væri að vera með tvo veitingastaði í sama húsi.

Sindri sagði að lokið væri við að gera upp þriðju hæð hússins sem samtökin hafi alltaf átt skuldlausa. Starfsmönnum á vegum Bændasamtakanna og þeirra aðildarfélaga hefur fækkað þannig að þau þurfa minna pláss. Því sé leitað að leigjendum til að fylla upp í plássið.

Sindri sagðist ekki velta sér sérstaklega hvað hefði orðið til þess að skuldir Hótels Sögu urðu jafn miklar og raun ber vitni. Hann sagðist halda að nær öll hótel í Reykjavík hefðu gengið í gegnum endurfjármögnun eftir hrun. Hann velti einnig upp þeirri spurningu hvort Bændasamtökin hefðu tekið of mikinn arð út úr félaginu á tímabili.

Framtíðin er annars í höndum næsta búnaðarþings. „Það verður að taka ákvörðunina. Ætlum við að leigja reksturinn, selja hótelið eða reka það áfram. Það fylgir áhætta því að eiga hótel."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.