Formaður hagræðingarhóps kannast ekki við seinkun á ráðningum búfjáreftirlitsmanna

lombEkki hefur enn verið hægt að staðfesta ráðningar nýrra búfjáreftirlitsmanna á vegum Matvælastofnunar (MAST) þótt búið sé að tilkynna um ráðningar í störfin. Ástæðan eru óskir hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um að kostnaður við ný dýraverndunarlög verði endurskoðaður. Formaður hópsins kannaðist ekki við málið þegar hann var spurður út í það á opnum fundi á Egilsstöðum á mánudagskvöld.

Samkvæmt áætlunum á Matvælastofnun um áramót að taka yfir störf búfjáreftirlitsmanna sem í dag starfa í hlutastörfum á vegum sveitarfélaga. Einnig á stofnunin að annast framkvæmd nýrra laga um velferð dýra.

Því hafa verið ráðnir sex búfjáreftirlitsmenn, einn í hvert umdæmi stofnunarinnar sem starfa munu undir héraðsdýralæknum. Einn sér um allt Austurland.

Samkvæmt tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sem nýverið voru kynntar, á að endurskoða kostnað við innleiðingu dýraverndunarlaganna.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið farið þess á leit við MAST að undirbúningsvinna við yfirtöku verkefnanna sem lögin fela í sér verði sett í bið. Þetta leiðir til þess að ekki er hægt að staðfesta ráðningarsamninga nýju búfjáreftirlitsmannanna að svo stöddu.

Á opnum fundi með bændum á Egilsstöðum á mánudagskvöld sagði Ásmundur Einar Daðason formaður hagræðingarhópsins að honum væri „ekki kunnugt um" þessi áhrif af tillögunum.

„Við erum bara að skoða hvort kostnaðurinn við þetta verði of mikill. Við gerum það við þessa yfirstjórn eins og aðrar. Þess vegna frestast gildistaka dýraverndunarlögunum."

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra leggi fram tillögu um aukna fjárheimild til MAST til að standa straum af innleiðingu laganna þegar seinni umræða um fjárlög næsta árs fer fram á Alþingi eftir helgi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.