Orri Smára: Of mikil tölvunotkun er oftast afleiðing annarra vandamála

orri smarasonUmdeilt er hvort skilgreina eigi mikla tölvunotkun sem fíkn eða hvort annað hugtak eigi betur við þótt einkennin séu um margt hin sömu. Algengast er að tölvufíknin haldist í hendur við önnur undirliggjandi andleg vandamál, svo sem lágt sjálfsmat. Erfiðast virðist oft til að fá notandann til að viðurkenna ofnotkun sína.

Þetta kom fram í fyrirlestri Orra Smárasonar, sálfræðings hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á vegum stofnunarinnar fyrir skemmstu.

Þar benti hann meðal annars á að læknisfræðilega væri hæpið að tala um tölvufíkn. Hún væri líkust spilafíkn en ekkert vímuefni væri í raun til staðar heldur kæmi örvunin annars staðar frá.

Mikil tölvunotkun hefur samt einkenni fíknar eins og mikla notkun, fráhvarfseinkenni, að einstaklingurinn byggir upp þol og þarf sífellt meira til að verða ánægðu.  Loks má nefna neikvæðar afleiðingar eins og að henni sé ekki hætt þrátt fyrir andfélagslegar afleiðingar.

Fjölþættur vandi

Viðmiðið fyrir tölvufík eða tölvuvanda er að tölvan sé notuð í annað en vinnu eða nám í 38 klukkustundir eða meira á viku. Áætlað er að 6-14% unglinga í framhaldsskólum uppfylli viðmið um tölvuvanda og innan við fjórðungur þeirra viðurkennir vandann sjálf. Íslenskur sálfræðingur hefur til dæmis fullyrt að tölvufíknin sé algengasta orsök brottfalls úr framhaldsskóla.

Aðrir halda því hins vegar fram að tölvunotkunin sé afleiðing annars konar vanda svo sem þunglyndis, athyglisbrests, félagsfælni, kvíða eða annars félagslegs vanda. „Oft er um fjölþættan vanda að ræða. Þetta er ekki spurning um orsök og afleiðingu. Þetta er samspil," sagði Orri.

Mesta hættan stafar frá tölvuleikjum og netnotkun, einkum samfélagsmiðlum. Orri segir að sálfræðilega séu tölvuleikirnir vel gerðir. Þeir byggi á skertum styrkingarhætti sem snýst um að verðlauna spilarann aðeins stundum til að fá hann til að spila meira.

„Þetta er útpælt og vel hannað," sagði Orri sem lýsti þeirri skoðun sinni að tölvuleikir væru vannýttir til kennslu. „Þeir kenna hins vegar eitt og annað ekki, til dæmis vissan hluta mannlegra samskipta."

Tölvuvandinn er algengastur meðal ungmenna en þekkist einnig meðal þeirra sem eldri eru. Hlutfall þeirra ungmenna sem eiga í tölvuvanda hérlendis hefur staðið í stað undanfarin 2-3. Orri er þeirrar skoðunar að toppnum sé náð þar en enn eigi tölvufíklum yfir 18 ára aldri eftir að fjölga.

„Hegðunin mótast í efstu bekkjum grunnskólanna. Það eru ekki bara unglingsstrákar sem eru mikið í tölvunni þótt þeir séu áberandi og helsti markhópur tölvuleikjaiðnaðarins. Stúlkur eru alveg jafn sterkar í netfíkn.

Ég hef ekki hugmynd um hversu algengt þetta er meðal fullorðinna. Tilfinning mín er sú að þar stefni kúrfan enn upp á við. Fyrsta alvarlega tilfellið sem ég fékk inn á mitt borð var miðaldra fjölskyldufaðir sem spilaði frá sér vinnuna og fjölskylduna á stuttum tíma."

Ekki bóla sem springur

Orri minnti á að samfélagið væri tölvuvætt og notkun tölva ætti aðeins eftir að aukast á næstu árum. „Þetta er ekki bóla sem er að fara að springa. Fyrst þegar ég hélt þetta erindi árið 2009 voru spjaldtölvur ekki til og snjallsímar þekktust varla."

Orri segir hægt að grípa til forvarna eins og að setja reglur um tölvunotkun sem fylgt sé eftir með umbun og refsingu, hafa tölvurnar í opnum rýmum og ekki skjái í svefnherbergjum barna. Eins sé mikilvægt að leggja áherslu á fleiri áhugamál og þar verði foreldrarnir að vera fyrirmyndir. Þá verði að meðhöndla önnur undirliggjandi vandamál.

Erfiðast getur verið að viðurkenna vandann. „Það er erfiðast að glíma við þá sem er alveg sama. Það er svakalega erfitt að hjálpa þeim sem vill ekki hjálp," segir Orri.

Komast þurfi yfir afneitunina, til dæmis með að skrá tímann sem fer í tölvuna eða benda á áhrif notkunarinnar á aðra hluti. Þeir sem spili mest segist gjarnan ætla að læra forritun en það að vera mikið í tölvunni gerir menn ekki hæfari til að búa til forrit heldur það að læra fagið.

Forðast verður tuð, fyrirlestra og reiðifyrirlestra heldur sýna samvinnuanda og hjálpa og styðja einstaklinginn. Takist að koma manneskjunni upp úr afneituninni sé hægt að taka næstu skref. Þá sé mikilvægt að finna fleiri áhugamál. „Það er auðveldara að auka æskilega hegðun en draga úr óæskilegri."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.