Enginn viðbótarbyggðakvóti á Breiðdalsvík: Íbúum finnst þeir hafa verið hafðir að fíflum

breiddalsvik1 ggBreiðdælingar eru afar ósáttir við þá ákvörðun Byggðastofnunar að úthluta engum viðbótarbyggðakvóta í sveitarfélagið. Umsóknir frá staðnum komust í úrtak en þóttu að lokum ekki nógu góðar. Þeir eru ósáttir við vinnubrögð stofnunarinnar sem stóð fyrir íbúaþingi daginn áður en tilkynningin barst.

Alþingi samþykkti í sumar lög um stofnunin hafi næstu fimm fiskveiðiár 1800 þorskígildi til ráðstöfunar til að styðja byggðarlög „í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi."

Um var að ræða fámennar byggðir utan fjölbreyttra atvinnusvæða með fábreytt atvinnulíf og litla möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu. Sex byggðir voru taldar koma til greina: Breiðdalshreppur, Drangsnes, Flateyri, Raufarhöfn, Suðureyri og Tálknafjörður.

Í auglýsingu Byggðastofnunar segir að endanlegt val á 4-6 byggðum byggi meðal annars á trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu eða aðra starfsemi og nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í samfélaginu. Öll sveitarfélögin, nema Breiðdalsvík, fengu viðbótarkvóta auk Bakkafjarðar sem ekki var í upphaflega úrtakinu.

Allir reiknuðu með einhverju

Stofnuninni bárust alls 16 umsóknir úr sex byggðarlögum. Í svari Byggðastofnunar til Austurfréttar segir að samið hafi verið aðila í hinum byggðunum þar sem „trúverðugar áætlanir voru uppi um að yfirgnæfandi meirihluti skráðra aflaheimilda yrðu nýttar til fullvinnslu sjávarafurða og þannig stuðlað að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma."

Þrír bátar með kvóta eru skráðir á Breiðdalsvík en aðeins einn þeirra er þar með fasta heimahöfn. Útgerðarmenn í plássinu fylktu sér því að baki honum, byrjuðu að innrétta fiskverkunarhús og sendu inn umsókn.

Sveitarfélagið hafði enga milligöngu aðra en að veita þeim stuðning. Páll Baldursson, sveitarstjóri, segir íbúa hins vegar svekkta yfir að engum kvóta hafi verið úthlutað til Breiðdalsvíkur. „Ég held að allir hafi reiknað með að það kæmi eitthvað."

Gremjan beinist að Byggðastofnun sem unnið hefur með Breiðdalsvík í sérstöku átaksverkefni um brothættar byggðir. Tilkynning stofnunarinnar barst á mánudegi að nýloknu tveggja daga íbúaþingi á vegum átaksins.

„Tilfinning og upplifun Breiðdælinga er sú að þeir hafi verið hafðir að fíflum. Menn spyrja til hvers þeir hafi verið að eyða heilli helgi í þessa vinnu," segir Páll.

„Stofnunin skipuleggur þingið þar sem niðurstaðan er að það vanti fleiri tækifæri. Þegar hún er sjálf í dauðafæri til að koma með eitthvað sem styrkir byggðina velur hún að taka frekar boltann og hlaupa út af frekar en skjóta honum í markið."

Erfiðleikar ljósir frá byrjun?

Í svari Byggðastofnunar segir að engin umsókn frá Breiðdalsvík hafi uppfyllt skilyrðin sem sett hafi verið. Á staðnum hafi ekki verið fiskvinnsla árum saman og aflaheimildir til staðar sem unnar séu annars staðar.

Sem fyrr segir er lagt upp með að verkefnið sé unnið í samstarfi við einkaaðila sem leggi til aflaheimildir á móti stofnuninni. Í svarinu segir að frá upphafi hafi verið ljóst að verkefnið næði ekki fram að ganga á Breiðdalsvík nema yfirgnæfandi hluti þess kvóta sem þar er skráður kæmu þar til fullvinnslu.

Því hafi verið á brattann að sækja að setja fram trúverðuga áætlun um uppbyggingu í sjávarútvegi þar sem potturinn hafi verið takmarkaður. Rétt hafi þó verið talið að láta á það reyna. „Það tókst því miður ekki."

Fulltrúar Byggðastofnunar heimsóttu Breiðdalsvík í haust og skoðuðu þar aðstæður. Páll segir útgerðarmenn hafa verið bjartsýna eftir heimsóknina en gagnrýni nú að þeim hafi ekki verið fyrr verið látnir vita hversu litla möguleika byggðarlagið átti.

Lágmark hefði verið að sýna spilin áður en íbúaþingið var haldið „Það kom til mín ung kona sem sagði við mig: „Ég mætti þarna sjálf og ákvað að hafa kjark til að standa upp og koma með mínar hugmyndir. Af hverju hafði Byggðastofnun ekki kjark til að standa upp og segja að það kæmi enginn kvóti?"

Það er enginn vafi að undirbúningur að ákvörðuninni var hafinn þegar þingið var haldið. Ef líkurnar voru engar þá hefði verið heiðarlegra að tilkynna það viku fyrir þing," segir Páll.

Traustið er farið

Hugmyndirnar frá íbúaþinginu eru nú til frekari úrvinnslu hjá Byggðastofnun. Þar fengust þær upplýsingar að stofnunin muni „leggja mikið á sig til að verkefnið skili tilætluðum árangri" og allra leiða verði leitað í samstarfi við heimamenn og fleiri til að efla atvinnulíf í Breiðdalshreppi.

„Þar á meðal verða skoðaðar allar leiðir til þess að sjávarútvegur og tengd þjónusta geti orðið ein af mörgum stoðum sem framtíð byggðarlagsins geti hvílt á."

Páll segir að sambandið við Byggðastofnun hafi beðið mikla hnekki. Framhaldið á verkefninu um brothættar byggðir verði að fá að skýrast á næstu dögum og vikum.

„Traustið er farið. Menn hafa ekki trú á þessari stofnun í dag. Það verður ekkert auðvelt að fá Breiðdælinga til að mæta á fund með Byggðastofnun strax aftur."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.