Við komum því til skila (á endanum)

Tvisvar á innan við ári hafa borist fréttir af stórkostlegum seinkunum á póstútburði á Austurlandi. Í fyrra skiptið var það á Seyðisfirði, nú nýverið á Eskifirði. Íbúar á síðarnefnda staðnum bera við að það hafi ítrekað komið upp og áskrifendur hafa nefnt Austurglugganum dæmi um að blaðið hafi borist viku síðar en áætlað er.

Talsmenn Íslandspósts hafa í bæði skiptin borið við veikindum bréfbera. Við þeim er ekkert að gera en það vekur athygli hversu naumt starfsmannahaldið er. Aðalmálið er að engin varáætlun virðist til staðar.

Íslandspóstur nýtur samkeppni Póstdreifingar á Höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Þegar þessum landssvæðum sleppir nýtur fyrirtækið einokunarstöðu. Það bitnar á Austfjörðum. Hvaða fyrirtæki í samkeppnisstöðu léti spyrjast út um sig að þjónusta þess væri dögum á eftir? Einkum þegar það auglýsir sig undir slagorðinu „við komum því til skila.“

Forsvarsmenn Íslandspósts bera sig illa og er ákveðin vorkunn. Tölvupóstur og önnur rafræn samskipti hafa gjörbreytt skeytasendingum manna í millum þannig að bréfsendingar, sem kallast í dag sniglapóstur, eru nær horfnar. Við áfalli er að búast þegar grunnstoðin í rekstrinum hverfur.

En það er ekki það eina. Í fréttaskýringu Fréttatímans fyrr í vetur var bent á að samdrættinum hefði meðal annars verið mætt með fjárfestingum í óskyldrum rekstri, svo sem kaupum á prentsmiðju og í flutningamiðlun. Þær hefðu ekki skilað sér, jafnvel þvert á móti. Lausafé Íslandspósts hefði þurrkast upp og fyrirtækið lent í að þurfa að slá lán fyrir launum.

Vandræðunum er mætt með kunnuglegum leiðum. Póstburðargjöld eru hækkuð meira hér en annars staðar í Evrópu samkvæmt úttekt Fréttatímans. Starfsfólki er fækkað og loks var útburðardögum í dreifbýli einnig fækkað þannig að aðra hverja viku eru þeir þrír og hina tveir. Sú þjónustuskerðing kemur hvað mest niður á þeim sem helst reiða sig enn á einokunarfélagið. Þá ber að minnast þess þegar póstkassar voru fluttir að heimreiðum bæja til að flýta fyrir póstútburði. Slagorðið „heim að dyrum“ hefur ekki mikið heyrst síðan.

Íslandspóstur er opinbert hlutafélag þannig að eignin er okkar allra. Það jafnvel gerir kaupin í dótturfélögunum enn merkilegri en leggur á það skyldur í þjónustu og upplýsingagjöf. Í samtali við Viðskiptablaðið er haft eftir ríkisendurskoðanda að embættið hafi spurst fyrir um fjárfestingarnar. Virðist sé borin fyrir rökum stjórnenda þótt ekki sé alltaf undir þau tekið. Nýjasta auglýsing fyrirtækins fjallar um úrval leikfanga sem kaupa má í pósthúsunum!

Í ljósi þjónustunnar og stöðu ríkisfyrirtækisins má spyrja hvort ekki sé kominn tími á að Ríkisendurskoðun, eða annar til þess bær aðili, taki að sér dýpri skoðun á Íslandspósti og stefnu fyrirtækisins heldur en fara yfir ársreikning hvers árs. Skýrslur hafa verið skrifaðar og löngum tíma eytt í þingsal í umræður um sambærileg félög af minna tilefni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.