Orkumálinn 2024

Verður Bjarni Ben með sykurmassanámskeið?

Það er nú líklega að bera í bakkafullan lækinn að tala um þetta. En ég bara verð enda ekki annað hægt.



Ég er menntaður grunnskólakennari. Einnig móðir fjögurra barna sem tvö eru á grunnskólaaldri. Þriðja útskrifað og það fjórða á leikskóla.

Ég er mjög, mjög uggandi yfir ástandinu skólakerfinu sem ég býst við að springi hreinlega í loft upp á hverri stundu.

Þó svo ég starfi ekki í faginu sjálf þekki ég nógu marga grunnskólakennara til þess að vita að kennsla er eitthvert mest krefjandi starf sem til er. Flest erum við sammála um að einnig sé um að ræða afar ábyrgðarmikið starf.

Grunnskólakennarar hafa tvívegis fellt kjarasamninga á árinu af þeirri einföldu ástæðu að launin duga ekki til framfærslu. Kennarar hafa hugsað sinn gang upp á síðkastið. Það sem fyllti mælinn voru hinar óskiljanlegu og fyrirvaralausu launahækkanir þingmanna, ráðherra og forseta Íslands sem Kjararáð kynnti strax daginn eftir kosningar.

Kennarar troðfylltu Háskólabíó daginn fyrir fyrsta sameiginlega fund samninganefndar Félags grunnskólakennara og Sambands sveitarfélaga með ríkissáttasemjara sem haldinn var á dögunum. Í hverri fréttinni á fætur annarri má lesa að þolinmæði innan stéttarinnar sé á þrotum og kennarar segjast frekar horfa til uppsagna en verkfalls, það hafi hvort sem er aldrei skilað neinu.

Ókei! Hvernig ætli þetta sé hugsað? Til dæmis innan kjararáðs sem fannst frábær hugmynd að hækka laun ráðamanna um upphæð sem nemur rétt tæplega mánaðarlaunum kennara og leggja þannig sitt af mörkum við að auka á ójöfnuð og ólgu innan samfélagsins. Nei, ég bara segi svona.

Ég tek mér það bessaleyfi að vitna hér í sveitunga minn (eða sveitungu mína?) frá Stöðvarfirði, Hjördísi Albertsdóttur, grunnskólakennara. Hjördís var með erindi á fyrrnefndum fundi, um þá ákvörðun að gerast kennari og afleiðingar þess. Hjördís er einstæð þriggja barna móðir og segir enda sjaldnast ná saman um mánaðarmót. Ég gríp niður í seinni hluta erindis Hjördísar þar sem hún talar til kollega sinna;



„Ég þarf ekkert að segja ykkur hver útborguð laun mín eru.

Ég þarf ekkert að segja ykkur hversu erfitt er að ná endum saman, og oftar en ekki ná þeir bara alls ekkert saman.

Ég þarf ekkert að segja ykkur hve ósanngjarnt það er að vera háskólamenntaður og þurfa að vinna meira en 43 klst á viku til að eiga í sig og á og svíkja börnin sín þar með um gæðastundir með mömmu.

Ég þarf ekkert að segja ykkur hve mikið það stingur í stúf, og hjartað, að sinna börnum allan daginn og geta svo ekki sinnt sínum eigin börnum vegna tímaskorts, þreytu og kvíða.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að við eigum skilið mannsæmandi laun, alveg óháð launum annarra stétta.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að við eigum skilið laun í samræmi við menntun, álag og ábyrgð.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að við búum á Íslandi.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að á Íslandi er til skítnóg af seðlum.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að hjá sveitarfélögunum flestum eru þessir peningar til.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að forsvarsmenn sveitafélaganna eru huglausar gungur sem þora ekki að stíga skref sem nú þegar hefur verið stigið, af Kjararáði.

Ég þarf ekkert að segja ykkur hvað gerist þegar kennarar hverfa úr skólunum hver á fætur örðum, í leit á önnur mið.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að sundruð sökkvum við.

Ég þarf ekki, en vil minna ykkur á að sameinuð getum við flutt fjandans fjöll.“

 

Erindi Hjördísar í heild sinni má sjá hér. 

Kennarastéttin hefur talað. Ég held að núna sé þetta ekkert grín. Engin úlfur, úlfur. Ég held að kennarar þessa lands séu í fúlustu alvöru að spá í að standa með sér svo þeir geti hugsanlega borgað reikningana sína um mánaðarmót og af lánunum af sínu fimm ára háskólanámi sem skilar þessari blússandi velferð. Og hvað þá? Hverjir eiga að kenna börnunum okkar? Bara einhverjir? Kannski ráðamennirnir? Verður Bjarni Ben með sykurmassanámskeið?

Staðreyndirnar tala einnig sínu máli og helmingur þeirra sem útskrifast úr kennaranáminu velja sér annan starfsvettvang. Jafnframt hefur þeim sem hefja nám við deildina fækkað til muna. Hvernig á annað vera? Hvaða stærðfræði er það að lengja námið úr þrem árum í fimm án nokkurs hvata? Auðvitað fækkar þeim sem leggja í þessa endemis vitleysu. Hér áður fyrr voru kennaralaun á pari við laun þingmanna. Hvað gerðist? Hver komst að þeirri niðurstöðu að sú stétt sem ætlað er að fræða og móta æsku landsins, börnin okkar og framtíðarauð, væri ekki mikilvægari en þetta. Ahh, var það þegar hún varð „kvennastétt“ – auðvitað, æ sí!

Í alvöru. Vilja ekki allir leggja allt í sölurnar fyrir velferð barna sinna og um leið allra barna? Hvað ætlið þið að gera? Ég sver það! Þetta er nú meiri andskotans vitleysan!

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.