Umferð eykst á Austurlandi!

Vegagerðin safnar ýmsum upplýsingum um umferð sem áhugavert er að rýna í. Þar kemur fram að vísitala meðalumferðar hefur aukist langmest á Austurlandi undanfarin ár. Frá árinu 2012 hefur umferð á lykilteljurum vegagerðarinnar á Austurlandi aukist um 100% sem er ekkert smáræði. Það þýðir að tvöfalt fleiri bílar aka um vegina nú en fyrir 5 árum.


Síðustu 7 ár þar á undan virðist umferð nokkurn veginn standa í stað sem er merkilegt í sjálfu sér. Þetta þýðir að þegar umferð vegna framkvæmda við byggingu Fjarðaáls og Kárahnúkavirkjunar minnkaði aftur í kringum 2007 kom önnur umferð í staðinn.

Það sem af er ári 2017 hefur umferðin aukist mest á Austurlandi eða sem nemur 16,3% skv. frétt Vegagerðarinnar frá 1. ágúst. Áhugavert verður að skoða umferðartölur í lok sumars því ágúst er ansi drjúgur ferða- og viðburðarmánuður á Austurlandi.

Við sem hérna búum verðum vör við þessa umferðaraukningu sem á ársgrunni er langt umfram það sem gerist í öðrum landshlutum. Skýringu má án efa að hluta til finna í uppgangi ferðaþjónustu en einnig breyttum ferðavenjum heimamanna. Það er mín tilfinning að íbúar Austurlands fari sífellt meira á milli staða til að sækja vinnu og ýmsa þjónustu. Við horfum orðið í meira mæli á allt Austurland sem okkar atvinnusvæði en ekki bara nærumhverfi heimilisins. Við sækjum læknisþjónustu á milli staða, verslum og förum út að borða svo dæmi séu tekin. Hið blómlega menningarlíf Austurlands ýtir enn frekar undir ferðalög.

Til þess að geta haldið áfram á þessari braut þ.e. að byggja undir möguleika fyrirtækja, íbúa og gesta Austurlands að njóta þess sem Austurland allt hefur upp á að bjóða, þá þarf samgöngukerfið að þróast með okkur. 

Sveitastjórnarstigið á Austurlandi kemur saman á haustin og fer yfir áherslur í ýmsum málaflokkum og samþykkir stefnu landshlutans þar á meðal í samgöngumálum. Í yfirskrift ályktana um samgöngumál kemur fram að „enginn einn málaflokkur er jafn þýðingarmikill fyrir landshlutann, hvort heldur er með tilliti til byggðaþróunar, atvinnumála, þ.m.t. ferðaþjónusta, heilbrigðisþjónustu eða samkeppnisstöðu“. Í ljósi ofangreindar umferðaraukningar þurfa nýframkvæmdir, endurbætur og viðhald á samgöngukerfinu á Austurlandi að ganga mun hraðar fyrir sig en undanfarin ár. Ég þori að fullyrða að stór hluti tíma sveitastjórnarmanna og annarra sem láta sig samgöngumál varða, fer í að ganga á eftir úrbótum í þessum málaflokki. Því er mikilvægt að ríkið geri áætlanir í samgöngumálum sem eru fjármagnaðar og staðið við. Fyrir áframhaldandi stefnumörkun og uppbyggingu á Austurlandi til framtíðar verður að koma einhver fullvissa um að stefnt sé að úrbótum í þessum málaflokki af hálfu stjórnvalda. Þörfin er brýn og forgangsröðunin liggur fyrir í eftirfarandi ályktunum SSA frá aðalfundi 2016.

Jarðgangagerð 

Aðalfundur SSA haldinn á Seyðisfirði 7. og 8. október ítrekar mikilvægi þess að tengja byggðir á Austurlandi með samgöngum til þess að rjúfa vetrareinangrun og efla framtíðarmöguleika svæðisins sem eins atvinnu- og þjónustusvæðis. Tryggja verður á fjárlögum næsta árs fjármagn til jarðganga undir Fjarðarheiði á milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar, sem er forgangsverkefni í jarðgangnagerð á Austurlandi, enda aðstæður íbúa á Seyðisfirði slíkar á vetrum að ekki verður við það unað lengur. Þá þarf að ráðast í rannsóknir á öðrum gangakostum, á milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð. Lögð er áhersla á að við gerð og uppsetningu samgönguáætlunar og gerð fjárlaga verði jarðgangagerð og rannsóknir vegna þeirra fjármögnuð með sérstökum hætti þannig að aðrar mikilvægar framkvæmdir í samgöngumálum landshlutans dragist ekki sökum fjárskorts. Í framhaldinu verði næstu verkefni í jarðgangagerð á Austurlandi göng til þess að tengja annars vegar Borgarfjörð og hins vegar Vopnafjörð við miðsvæðið. 

Þjónusta, nýframkvæmdir og viðhald 

Aðalfundur SSA haldinn á Seyðisfirði 7. og 8. október telur lykilatriði að faglegt mat og almennar reglur Vegagerðarinnar eigi að gilda um val á legu þjóðvegar 1. Brýnt er að samgönguyfirvöld taki afstöðu til þessa vals hið fyrsta. Það sem skiptir hins vegar höfuðmáli er að vetrarþjónusta á öllum vegum landshlutans sé viðunandi og geri íbúum og gestum kleift að sinna atvinnu, menntun og öðrum erindum innan svæðis án vandkvæða og með sem minnstri fyrirhöfn. Þá verður að tryggja sem best aðgengi, og þar með öryggi allra íbúa á svæðinu, við fjórðungssjúkrahúsið og Egilsstaðaflugvöll. 

Þá er ekki síður mikilvægt að staðið verði við þær nýframkvæmdir í landshlutanum sem undirbúnar hafa verið síðustu ár og áratugi og komnar voru á samgönguáætlun. Má þar nefna uppbyggingu heilsársvegar yfir Öxi sem er forgangsverkefni og lagningu slitlags og endurbyggingu vega. Á Austurlandi eru margir vegkaflar sem í dag eru stórhættulegir, má þar nefna vegi um Suðurfirði og Hamarsfjörð, sem og Breiðdal og Borgarfjörð eystri. Þá ber að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við lagningu slitlags fyrir botni Berufjarðar og um Skriðdal. Í ljósi aukins umferðarþunga, er það ábyrgðarhluti að gætt sé sérstaklega að umferðaröryggi, hvort heldur er við nýframkvæmdir eða viðhald samgöngumannvirkja. Malarvegir á borð við Upphéraðsveg um Fell og efri Jökuldal og veg um Jökulsárhlíð og um Hellisheiði sem og Hlíðarveg eru óboðlegir. Sömuleiðis verður að setja byggingu nýrrar brúar yfir Lagarfljót við Egilsstaði í forgang framkvæmda við brúargerð á landinu og ráðast í átak til að fækka einbreiðum brúm í landshlutanum. Tryggja verður öryggi á vegaköflum inn og út úr landshlutanum, t.a.m. á milli Vopnafjarðar og Þórshafnar og Djúpavogs og Hornafjarðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Austurbrúar

vegagerdin landssvaedi jona1
vegagerdin landssvaedi jona2


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.