Trufluð veröld

Um daginn var ég mjög stoltur, því ég hafði efni á að kaupa mér flatskjá. Ég kveikti á mínu rándýra veggsjónvarpi en fyrir mér er sjónvarp gluggi út í veröldina. Nú ætlaði ég njóta þess að fylgjast með.

En það var alveg sama á hvaða stöð ég stillti, það voru bara óheilindi. Ég sá brenglaðan heim og morð út um allt.


Á Spáni höfðu ungir drengir stolið sendibíl til að keyra niður saklaust fólk á göngugötu í Barcelona. Þetta var skipulagt hryðjuverk og aðeins byrjunin. Því þeir höfðu verið að safna gaskútum og öðru til að búa til öfluga sprengju sem átti að sprengja stóru Sagrada-kirkjuna í Barcelona. Köllun þeirra var hryðjuverk í nafni Íslams.

Birna Brjánsdóttir virðist hafa verið barin til dauða í aftursætinu á bíl. Hvað í veröldinni gerði hún? Saklaus stúlka lendir í höndunum á ofbeldismönnum sem skemmta sér við að misþyrma öðrum. Ungir menn sem eru veruleikafirrtir og ruglaðir af eiturlyfjaneyslu. Svo var allt gert til að fela sporin, bíllinn skrúbbaður að innan og líkinu hent í sjóinn í von um að ekkert kæmist upp. Engin játning og engin iðrun.

Ekki bætti það úr skák að sjá fréttir um vinsælan uppfinningamann í Danmörku sem smíðaði sinn eigin kafbát en virðist svo alls ekki vera í lagi í toppstykkinu. Ung blaðakona fékk að fara í siglingu með honum. En eitthvað hroðalegt gerðist því hann virðist hafa myrt blaðakonuna og sundurlimað líkið og hent bitunum í sjóinn. Hann hafði þrýst loftinu úr lungunum og fest járn við búkinn svo hann myndi sökkva. Útlimunum og fötunum dreifði hann um flóann. Sigldi síðan ljóslaus alla nóttina svo ekki væri hægt að rekja ferðir hans. Samkvæmt aðferðunum finnst manni eins og þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hann framkvæmir slíkan óverknað. Svo sökkti hann kafbátnum til fela ummerkin. Maðurinn viðurkennir ekkert og segir að það hafi orðið slys um borð í kafbátnum. Það er engin iðrun og engin játning. Hér er bara verið að reyna að fela sönnunargögn til að sleppa. Hvað er að koma fyrir veröldina? Er maður hvergi öruggur?

Mér varð óglatt við allar þessar fréttir og svaf illa um nóttina. Það er alveg sama hvað sjónvarpið er dýrt, það er ekkert betra efni í því. Ég slökkti á apparatinu, missti áhugann á að skoða gluggann út í veröldina. Það er ljótur gluggi. Fór frekar inn í Hallormsstað til að tína hrútaber.

Nú hef ég kross um hálsinn á nóttunum og sjónvarpið hef ég tekið úr sambandi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.