Tíminn ræður úrslitum

Hann hafði verið þreytulegur og fölur alla vikuna á undan. Kannski ekkert óeðlilegt við það enda miður nóvember. Það var kalt, morgnarnir orðnir dimmir og veturinn í þann mund að skella á. Ég vakna við að mamma kemur inn í herbergið mitt. „Andskotinn..” hugsaði ég. „Ég hef sofið yfir mig!”. Af tvennu illu hefði það verið skárri kosturinn. Móðir mín, sem virðist mér ávallt svo róleg og yfirveguð, hvíslar blíðlega: „Ástin mín, pabbi þinn fékk hjartaáfall og ég ætla að fara með honum suður. Getur þú komið systur þinni í skólann?”


Með sjúkraflugi fór tæplega fimmtugur faðir minn á Landspítalann í Reykjavík og enn þann dag í dag þakka ég fyrir að veðurskilyrði hafi leyft lendingu sjúkraflugs í Reykjavík þennan morgun. Stundin þegar 18 ára unglingsstúlka áttar sig á því að foreldrar hennar, sem eru og verða hennar stoð og stytta í gegnum lífið, eru ekki gerð úr stáli er furðuleg að upplifa. Minningin hverfur mér allaveganna seint úr minni.

Sömu skattar – sama velferðarkerfi

Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll, heimahöfn flugdeildar Landhelgisgæslu Íslands og gegnir lykilhlutverki í viðbragðsáætlunum Almannavarna vegna stórslysa og náttúruvár. Þá er Reykjavíkurflugvöllur miðstöð innanlandsflugs sem tengir landsbyggðina við ýmsa þjónustu, bæði opinbera og einkarekna, sem er þá ekki að nálgast í heimabyggð íbúa á landsbyggðinni. Flugvöllurinn er jafnframt endastöð sjúkraflugs en 1. desember síðastliðinn fór sjúkraflug Mýflugs í sitt sexhundraðasta flug á þessu ári. Um forgangsflutninga til Reykjavíkur hefur verið að ræða í 257 skipti þar sem tíminn fær að ráða úrslitum. Þessir einstaklingar borga líka skatta, og jafnháa meira að segja, til að eiga rétt á sama velferðarkerfi og þeir sem búa svo vel að geta sótt lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu í nánasta umhverfi.

Að opna eyrun og hlusta

Staðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni er mjög umdeild og byggja ýmis rök stuðningsmenn lokunar flugvallarins á því hversu verðmætt landsvæðið er fyrir uppbyggingu borgarinnar. Ég geri mér grein fyrir því að það þurfi að byggja upp höfuðborgarsvæðið á hagkvæman hátt til að mæta áætlaðri íbúafjölgun, að það þurfi að þétta byggð ásamt því að auka sjálfbærni og samkeppnishæfni borgarinnar. Koma tímar, koma ráð – eflaust finnst hagkvæmari lausn sem hentar Íslandi öllu þegar á líður. En þar til sá tími kemur þætti mér vænt um að stuðningsmenn lokunar Reykjavíkurflugvallar myndu gera að minnsta kosti heiðarlega tilraun til að reyna að skilja hlið fólks á landsbyggðinni og hversu mikilvægur Reykjavíkurflugvöllur er okkur.

Greinin er sú þriðja í greinaskrifaátaki ungra Austfirðinga. #UNGAUST

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.