Þú harkar ekki af þér krabbamein

Fyrir ári stóð ég fyrir framan hrúgu af pillum og ætlaði að enda þetta. Fyrirætlun sem var ekki ný af nálinni. Ég skrifaði bréf til mömmu og var sátt við ákvörðun mína.

Svo leið mér eins og aumingja þegar ég gat ekki tekið skrefið til fulls.


Það sem ég vissi ekki þá var að hugarástand mitt stjórnaðist algjörlega af áfallastreituröskun í kjölfar nauðgunar. Ég hafði tekið þann pól í hæðinni að harka af mér og fá ekki hjálp, mér fannst þetta nefnilega „ekki nógu mikil nauðgun” og að þetta hefði verið mér að kenna.

Þunglyndi og kvíði hafa lengi verið mér samferða í gegnum lífið en mér fannst ég alltaf hafa stjórn á því, ég þurfti enga hjálp. Ég vildi ekki byrja aftur á lyfjum, þau gerðu mig svo sljóa og að annarri manneskju. Svona er ég bara — sagði ég sjálfri mér.

Þú harkar ekki af þér andleg veikindi, það er einfaldlega ekki hægt að bíta á jaxlinn og reyna að þrauka. Þú myndir ekki gera það ef um væri að ræða annan sjúkdóm. Þú harkar ekki af þér krabbamein og það sama á við um sálarmein. Eftir að ég byrjaði hjá Kvíðameðferðastöðinni hef ég komist að því að ég er ekki bara svona, þetta er röskunin mín.

Þú veist aldrei hvernig manneskjunni við hliðina á þér líður. Gríman sem ég hafði sett upp varð allt í einu of þung til að burðast með og ég gat ekki meira. Því er mikilvægt að létta af sér og fá hjálp.

Það er ekki merki um veikleika að leita sér hjálpar, geðræn vandamál eiga nefnilega ekki að vera tabú. Þau eru rétt eins og hver annar sjúkdómur sem þarf að taka föstum tökum.

Hjálpina fékk ég fyrir sunnan, þar gat ég valið úr sálfræðingum og fór til nokkurra áður en ég fann þann sem hentaði mér. Við búum ekki við þann lúxus fyrir austan og ef einstaklingur með vanda kýs að fara suður bætist við mikill auka kostnaður.

Þetta veldur því að fólki af landsbyggðinni hættir til þess að fresta því og leita sér jafnvel aldrei hjálpar. Dæmi eru um að fólk beri oft harm sinn í hljóði í mörg ár án þess að leita sér hjálpar.

Vissulega eru dæmi um að fólk sé ekki tilbúið að stíga skrefið að þiggja hjálp – en hjálpin þarf að vera til staðar og fólk þarf að vita af því. Þá er ótvírætt auðveldara að þiggja hana þegar á reynir, og jafnvel væri hægt að grípa í hana áður en á þarf að reyna. Staðreyndin er sú að sálfræðiþjónusta er ábótavant á landsbyggðinni. Þeir sem búa á landsbyggðinni þurfa jafn mikið á henni að halda og þeir sem búa í höfuðborginni.

Sorglega staðreyndin er sú að við sem samfélag höfum misst margt ungt fólk. Til þess að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig þarf fræðslu, opna umræðu og að hjálpin sé til staðar.

Það gefur auga leið að það gerir engum gott að bera harm sinn í hljóði og geðheilbrigðisþjónusta á ekki að vera lúxus sem einungis sumir leyfa sér eða þjónusta sem fer eftir fjárhag hvers og eins, nú eða búsetu.

Það þarf að anna eftirspurn og veita sómasamlega þjónustu, því það eru líf að veði.

Ég vil ungt Austurland, ég vil bætta geðheilbrigðisþjónustu.

Greinin er sú númer tvö í greinaskrifaátaki ungra Austfirðinga. #UNGAUST

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.