Orkumálinn 2024

Þjóðvegur 1 – Öryggi í fyrirrúmi

Í síðustu viku, á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, tilkynnti Jón Gunnarsson, samgöngumálaráðherra, að Þjóðvegur 1 skuli liggja um firði og Fagradal í stað þess að liggja yfir Breiðdalsheiði. Ákvörðunin virðist hafa farið fyrir brjóstið á fámennum hópi sem hefur farið hátt á samfélagsmiðlum og nýverið skrifaði Sigurjón M. Egilsson grein um málið þar sem hann gefur í skyn að um skyndiákvörðun hafi verið að ræða, geðþóttaákvörðun ráðherra sem byggi á einskonar verðlaunaafhendingu miðað við þá langsóttu samlíkingu sem greinahöfundurinn notaði.

Það er því ástæða til þess að rekja þetta mál, sérstaklega fyrir þá sem ófærir eru um að sækja sér upplýsingar og nota þess í stað ómálefnalegar dylgjur til að vega upp á móti vanþekkingunni.

Ákvörðunar ráðherra hefur verið beðið um árabil og er eins fjarri því að vera skyndiákvörðun og hugsast getur. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi árið 2013 samþykkti einróma ályktun um nauðsyn þess að Vegagerðin myndi framkvæma faglegt mat á legu Þjóðvegar nr. 1 um Austurland. Ítrekað hefur verið gengið á eftir mati Vegagerðarinnar undanfarin ár og í heimsókn Vegamálastjóra og ráðherra austur þann 21. ágúst síðastliðinn tilkynnti Vegamálastjóri að mat Vegagerðarinnar væri tilbúið og yrði kynnt ráðherra í kjölfarið. Frá þeim tíma hafa Austfirðingar beðið eftir niðurstöðu í samræmi við faglegt mat Vegagerðarinnar.

Í mati Vegagerðarinnar er byggt á eftirfarandi matsþáttum;
• Vegalengd frá Djúpavogi til Egilsstaða og Egilsstaðaflugvallar
• Fjallvegir frá Djúpavogi til Egilsstaða og Egilsstaðaflugvallar
• Vegalengd frá Djúpavogi til Reyðarfjarðar
• Fjallvegir frá Djúpavogi til Reyðarfjarðar
• Þýðing vega fyrir landbúnað
• Þýðing vega fyrir fiskiðnað og almenna flutninga
• Þýðing vega fyrir stóriðju, sjóflutninga og annan iðnað en fiskiðnað
• Öryggi ferðamanna að vetrarlagi
• Öryggi ferðamanna að sumarlagi
• Umferð

Við mat á þessum þáttum kemst Vegagerðin að þeirri niðurstöðu að „[þ]egar velja á milli Axarvegar og Suðurfjarðavegar/Norðfjarðarvegar sést glöggt að flestir matsþættirnir eru Suðurfjarðaleiðinni í hag. Miklu máli skiptir matsþátturinn öryggi ferðamanna enda er öryggi á vegum eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar. Með hliðsjón af því og þegar litið er til töflunnar hér að ofan leggur Vegagerðin því til að Hringvegur (1) liggi um Fagradal og Suðurfirði.“
Það liggur fyrir að eftir matinu hafði verið beðið allt frá því að sveitarfélög á Austurlandi skoruðu á samgönguyfirvöld að framkvæma mat árið 2013. Það er því ljóst að ákvörðun ráðherra með hliðsjón af matsþáttum fagmannanna var eðlileg ákvörðun og það var eðlilegt að tilkynna hana á aðalfundi SSA, þaðan sem áskorunin kom upprunalega, áður en sveitarstjórnarmenn á Austurlandi færu að eyða enn frekari tíma í að álykta um sama hlutinn enn eina ferðina.

Úrtöluraddir ættu að kynna sér málið betur og fagna ákvörðun ráðherra með okkur enda byggir hún einna helst á öryggissjónarmiðum sem og öðrum þáttum.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.