Sláturtíð

Það er erfitt að átta sig á hvar eigi að byrja eða enda umræður um vanda sauðfjárræktarinnar. Á tæplega fimm tíma fundi nýverið var enginn reiður, þótt búast hefði mátt við öðru í ljósi tekjumissis sem reiknaður er 35-100%. Fólk hefur tapað sér af minna tilefni. Að þessu sinni eru það ekki bara lömbin sem eru á leið til slátrunar heldur mögulega líka bændurnir.

Vonandi er skortur á skapofsa ekki mark um uppgjöf heldur frekar að menn álíti að reiði og skammir leysi ekki vandann. Það voru svo sem engar stórar lausnir á fundinum, nema kannski sú að bændur myndu bjóðast sameiginlega til að fækka fé sínu um 10-15%. Fyrst og fremst snérist fundurinn um spurningar og svör.

Vandi greinarinnar er margþættur. Í fyrsta lagi lægra verð og lokun á erlendum mörkuðum um leið og gengi krónunnar hefur sveiflast hratt í afar óhagstæða átt. Sá hópur sem helst hefur stutt krónuna er orðinn sá sem gallar hennar bitna harðast á.

Í öðru lagi áratuga breytingar á neysluvenjum, neysla lambakjöts á hvern Íslending hefur minnkað um helming á síðustu 30 árum. Menn eru enn að rífast um hvernig skera eigi kjötið og koma því ofan í fólk á ferðinni.

Hluti þess vanda kann að vera að lítil framlegð hafi verið hjá afurðastöðvunum þannig þær hafi ekki getað farið í þá þróunarvinnu, bæði í vörum og tækni, sem til hefði þurft. Til samanburðar má horfa á sjávarútveginn sem leiddur er af arðbærum stórfyrirtækjum sem með þróun hafa náð að útrýma nær öllu sem kölluðust aukaafurðir.

Kannski hafa sauðfjárbændur að einhverju leyti sofið á verðinum. Salan innanlands hefur langt því frá aukist í takt við sífellt fleiri munna sem metta þarf.

Sameining og samkeppni

Sláturhúsum og afurðastöðvum hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Það er erfitt að sjá fyrir sér annað en það haldi áfram. Fjallalambi á Kópaskeri var bjargað fyrir horn með nýju hlutafé síðasta haust en það gengur ekki til lengdar. Spurningin er hvort eigendur félaganna hafa frumkvæði að sameiningu eða hvort dauði eins verði annars brauð. Fyrir tveimur árum var hagræðing af samruna Kjarnafæðis og Norðlenska talin nema 500 milljónum króna. Eflaust væru einhverjir bændur þakklátir fyrir þá hagræðingu í dag á sama tíma og bæði fyrirtækin lækka verðskrá sína. Á móti kemur að tilboð Kjarnafæðis var nánast upp á að eigendur Norðlenska gæfu fyrirtækið sitt. Bændur hafa líka varann á sér gagnvart of mikilli fækkun afurðastöðva í ljósi reynslu Mjólkursamsölunnar af yfirvöldum samkeppnismála.

Sú stofnun á sér kannski lagastoð fyrir því að banna afurðastöðvunum að vinna saman að útflutningi. Hagfræðilega virðist hins vegar ekki heil brú í þeirri ákvörðun sem beinlínis hvetur til samþjöppunar afurðastöðvanna.

Samkeppnisyfirvöld hafa reynst bændum erfið á fleiri vegu. Framleiðendunum er beinlínis meinað að hafa með sér samráð til að bæta kjör, enda eru samkeppnislögin sett til þess. Á sama tíma þurfa þessir einyrkjar að selja inn á matvörumarkað þar sem ríkt hefur fákeppni. Stóru verslanirnar virðast hafa verðmyndunina í höndum sér og beygja afurðastöðvarnar, sem flestar eru í eigu bænda, þannig að þær lækka frekar verðið til framleiðenda heldur en að hækka það til kaupenda.

Fjöldauppsagnir

Í flestum öðrum greinum myndi 40% verðfall þýða tafarlausar fjöldauppsagnir starfsfólks. Það er erfitt að koma þeim við í landbúnaðinum. Bændurnir segja ekki sjálfum sér upp öðruvísi en að hætta. Og í sauðfjárræktinni er framleiðslan ákveðin 1-1,5 ár fram í tímann, fyrst þegar bændur kaupa áburð, síðan þegar þeir velja ásetningslömb. Við bætast náttúrulegar aðstæður, metframleiðsla er yfirvofandi í ár, meðal annars út af góðu árferði. Í sumar hefur heyfengur verið óvenju góður en hver á að éta hann? Af þessum sökum er hins vegar ljóst að tal um að búvörusamningi, sem ekki er byrjað að framleiða eftir, sé um að kenna er bull.

„Fjöldauppsagnirnar“ hefðu einnig félagslegar afleiðingar. Sauðfjárbændur treysta á samtrygginguna næstu vikur þegar þeir smala fé sínu af fjalli. Fækki bændum í sveitinni þýðir það að þeir sem eftir eru munu eiga erfitt með að smala. Þá er sjálfhætt.

Félagslegu afleiðingarnar má ekki vanmeta. Sauðfjárræktin hefur til þessa verið sú búgrein sem minnst hefur treyst á fjarlægð frá markaði sem þýðir að hún hefur haldið uppi afskekktustu og viðkvæmustu byggðunum. Afleidd störf á þéttbýlisstöðum eru einnig í hættu.

Hugsjón en ekki atvinna

Meðalaldur sauðfjárbænda er 57 ár. Við núverandi aðstæður geta menn gleymt öllu tali um nýliðun í greininni. Það er enginn að fara að leggja út í tugmilljóna kostnað við kaup á bústofni og tækjum. Hvað þá að einhver bankastofnun láni fyrir slíku. Austurglugginn hefur spurnir af dæmum um fólk sem viljað hefur kaupa jarðir eystra og staðist greiðslumat en ekki fengið lánið. Að auki má rifja upp stefnu ríkisins um að vilja selja jarðir frekar en leigja þær og mergjaðan slugsagang við að koma þeim í umferð. Nokkrar milljónir í viðbót í lán og vaxtagreiðslur eru afar hvetjandi fyrir nýliðana!

Sumir talsmenn bænda nefna að ríkið verði að koma að bráðavandanum. Ríkisstjórnin þarf mögulega að ákveða að eyða peningum skattborgara til að koma í veg fyrir hrun í byggðunum. Það er hins vegar ekki endalaust hægt að sækja í vasa annarra skattgreiðenda. Sem betur fer virðast bændur gera sér grein fyrir því.

Þeim sem vilja halda uppi byggð sem víðast um landið getur ekki staðið á sama um vanda sauðfjárbænda. Sem skattgreiðendur og neytendur látum við ekki bjóða okkur hvað sem er. Mest niðurdrepandi er hvað lausnirnar virðast fjarlægar og sárar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.