Orkumálinn 2024

Ljóti andarunginn á vinnumarkaðnum á Austurlandi

Það er frábært að lifa og starfa á Austurlandi. Hér eru vinaleg og samheldin samfélög, góðir skólar, ásættanlegt húsnæðisverð og gott veðurfar. Hér vil ég vera. Ég vil líka að börnin mín hafi þann valkost að búa á Austurlandi þegar þau komast á fullorðinsár. Ég hef þá von að samfélagið okkar vaxi og dafni sem framsækið, eftirsóknarvert atvinnusvæði með margbreytilegri menningu og fjölbreyttum hópi fólks.

Það er því erfitt fyrir mig að horfast í augu við þá staðreynd að á landsbyggðinni almennt og ekki síst á Austurlandi er staða jafnréttis mun verri en í þéttari byggðum. Nú malda eflaust margir í móinn og spyrja hvort ég hafi það slæmt eða konur í kringum mig hafi það slæmt. Svarið er nei, við höfum það auðvitað ágætt. Samt sem áður er samfélag okkar á Austurlandi komið skemmra á veg í jafnréttismálum heldur en á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Þetta hafa fjölmargar rannsóknir á Íslandi sýnt og sömu sögu er að segja af dreifðum byggðum á Norðurlöndum.

Launamunur kynjanna á Austurlandi var árið 2016 um 30% samkvæmt tölum frá Hagstofunni og er mestur hér á landinu. Í yfirgripsmikilli skýrslu Velferðarráðuneytisins frá 2015 um stöðu kvenna og karla á Íslandi kemur fram að ungar konur fremur en ungir karlar flytjast frá landsbyggðinni. Þetta skýrist af vinnumarkaði þar sem mikill meirihluti starfa í boði eru hefðbundin karlastörf. Að óbreyttu verður því staða sonar míns í samfélaginu á Austurlandi sterkari heldur en staða dætra minna þegar þau komast á fullorðinsár.

Ofangreind skýrsla segir ennfremur frá því að konur sækja síður um styrki til atvinnusköpunar heldur en karlar. Sæki þær um styrki fá þær síður úthlutað úr sjóðum fyrir frumkvöðla. Konur taka síður þátt í frumkvöðlastarfi og skýrist það sennilega af karllægri ímynd frumkvöðulsins. Konur eru í minnihluta í valdastöðum í samfélaginu og nái þær völdum aðlaga þær sig flestar að karllægum stjórnunarstíl í stað þess að búa til nýja ímynd kvenstjórnenda. Fari konur inn á svið karla, hvort sem það er í hefðbundin karlastörf eða í valdastöður þurfa þær að hafa meira fyrir lífinu í karlaumhverfinu, finna fyrir meira álagi, verða fyrir einelti, áreitni eða jafnvel ofbeldi eins og nýleg dæmi sýna.

Ungu konunni á vinnumarkaði á Austurlandi mætti líkja við ljóta andarungann. Við sem samfélag erum andahópurinn. Við hnýtum í ungann, segjum honum að hann eigi ekki heima hér, goggum í hann, leggjum hann jafnvel i einelti og hrekjum hann í burtu. Ég held að við getum öll verið sammála um að við þurfum að taka ljóta andarungann í fangið og bjóða hann velkominn á Austurland, til framtíðar. En hvernig getum við breytt viðhorfi okkar og staðalmyndum til að ungi svanurinn finni sig eiga heima hér? Hér eru nokkur áhrifarík atriði sem við getum komið strax í verk:

• Gefum stelpunum líka bíla, kubba, lestir og tæknileikföng. Gefum strákunum líka dúkkur og eldhúsdót. Staðalmyndir mótast strax í bernsku og við getum auðveldlega haft áhrif á þær. Eigum samtal við börnin um að það er ekki til stelpudót og strákadót eða stelpulitir og strákalitir – bara dót og litir.

• Förum að jafnréttislögum og fræðum börn og unglinga um jafnrétti í skólum. Strákar þurfa að vita að þeir geta líka valið sér að vera hárgreiðslumenn, snyrtifræðingar, hjúkrunarfræðingar og kennarar. Stelpur þurfa að vita að þær geta líka valið sér að vera rafvirkjar, píparar, vélvirkjar, smiðir, forritarar, flugmenn, verkfræðingar og stjórnendur.

• Hvetjum nýja og verðandi feður í kringum okkur til að taka fæðingarorlof til jafns við mæðurnar. Styðjum og hvetjum unga foreldra til að finna jafnvægi á milli umönnunar barna, vinnu og heimilisstarfa.

• Sýnum virðingu, fögnum margbreytileikanum og verum vinsamleg við alla - ekki bara þá sem líta eins út og við. Hvetjum fólk til þátttöku og umræðu. Leyfum öllum að vera með og grípum ekki fram í fyrir fólki.

• Brjótum upp hefðbundin kynjahlutverk í tómstundum með því að bjóða konunum líka á hreindýr, rjúpu og gæs, í stangveiði, vélsleðaferðir, mótorhjólaferðir og torfæru. Togum karlana með í Zumbatíma, jogatíma, á sauma-, handavinnu- og matreiðsluhittinga. Kvenna- og karlahópar eru vissulega innan þægindarammans, en þeir eru líka til þess fallnir að styrkja hefðbundnar staðalmyndir kynjanna.

• Köllum stjórnendur til ábyrgðar á að setja jafnréttisstefnu í fyrirtækjum og stofnunum og vinna markvisst að þeim eins og jafnréttislög gera ráð fyrir. Gerum vinnustaði fjölskylduvænni fyrir alla með því að minnka yfirvinnu og auka sveigjanleika starfa.

• Leyfum konum að njóta vafans - þær eru síður valdar til starfa og til áhrifa vegna ómeðvitaðra fordóma okkar allra þrátt fyrir að vera jafnvel hæfari valkostur.

• Gerum sanngjarnar kröfur. Karlar mega sýna tilfinningar sínar og þurfa ekki alltaf að vera sterkir. Konur mega vera til án þess að vera með 150% frammistöðu á sama tíma í vinnu, skóla, á heimili og í barnauppeldi ásamt því að líta óaðfinnanlega út á meðan.

Ef við vinnum markvisst og stöðugt að því að brjóta staðalmyndir niður á þennan hátt, hef ég trú á því að litlu svanirnir mínir tveir, finni sig velkomna á Austurlandi og finni tækifæri hér til að lifa og starfa í stað þess að fljúga burtu til heitari landa. Jafnrétti skapar betra samfélag á öllum sviðum og ég vil búa í framsæknu jafnréttissamfélagi.

Ungu konurnar okkar eru auður Austurlands. Tengslanet austfirskra kvenna (TAK) ásamt samstarfsaðilum býður til samtals um framtíð vinnumarkaðar á Austurlandi. Verið velkomin á ráðstefnuna Auður Austurlands, á Hótel Héraði 7. desember kl. 13:00.

Höfundur er fráfarandi formaður TAK

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.