Ljósnet Mílu til allra heimila á Egilsstöðum

Síðustu vikur hefur Míla unnið við Ljósnetsvæðingu á Egilsstöðum og var mikilvægum áfanga náð í því verkefni þegar lokið var við tengingu Ljósnetsins á Egilsstöðum. Þar með eru öll heimili í bænum komin með möguleika á háhraðanetstengingu um Ljósnet Mílu.


„Það eina sem íbúar Egilsstaða þurfa að gera til að fá tenginguna er að hafa samband við sitt fjarskiptafélag og óska eftir Ljósnetinu en kerfi Mílu er aðgengilegt öllum fjarskiptafélögum sem bjóða þjónustu til endanotenda,“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.

Háhraðanet hratt til allra

Ljósnet er tenging sem byggir á svokallaðri VDSL-tækni. Þetta eru algengustu háhraðanetstengingar í Evrópu og þar eru þessar tengingar gjarnan nefndar „Fiber-tengingar“. Ljósleiðari er tengdur alla leið í götuskáp í nágrenni við öll heimili og sérstakur búnaður tryggir hraða síðasta spölinn inn til notanda.

Jón segir að almennt sé staða Ljósnetsvæðingar í þéttbýli á landsbyggðinni sú að búið sé að setja upp Ljósnet á öllum þéttbýlisstöðum út frá símstöðvum. Fyrir flesta minni þéttbýlisstaði dugir þetta til að þjóna viðkomandi bæjarfélagi.

Á stærri þéttbýlisstöðum og á stöðum þar sem vegalengd til heimila frá símstöð er mikil þarf að setja upp götuskápa (eins konar smásímstöð) sem tengdir eru með ljósleiðara og þjóna svæði í kringum sig. Þannig er hægt að ná til þeirra heimila sem eru langt frá símstöð. „Ljósnet er einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að veita háhraðanetstengingar til allra og er það orðið aðgengilegt á yfir 90% heimila á Íslandi. Með lagningu Ljósnetsins er að auki kominn ljósleiðari í nágrenni við öll heimili og auðveldar það framkvæmd á næsta skrefi í þróuninni sem verður að bjóða notendum ljósleiðara alla leið,“ segir Jón.

Árlega er gerður samanburður á fjarskiptaþjónustu á Norðurlöndunum og nokkrum Eystrasaltslöndum og hefur Ísland verið þar langfremst meðal jafningja þegar kemur að útbreiðslu háhraðanettenginga til heimila. Ljósnetið og dreifing þess um landið á stóran þátt í því að staða háhraðanettenginga á Íslandi er mun betri en í samanburðarlöndunum.

Framtíðin

Bandvíddarþörf heimila mun halda áfram að aukast. 100Mb/s mun þó uppfylla þarfir heimilanna næstu árin. „Hraða Ljósnets verður hægt að auka enn meira en Míla mun leggja áherslu á að leggja ljósleiðara í stað koparendans samhliða annarri uppbyggingu fjarskipta,“ segir Jón. „Míla mun bjóða notendum í náinni framtíð að skipta koparenda út fyrir ljósleiðara og fá þar með ljósleiðara alla leið. Míla mun bjóða þann hraða sem notendur þurfa til framtíðar bæði með Ljósneti og Ljósleiðara Mílu.“

Ljósnet og Ljósleiðari Mílu eru einu kerfin sem eru alveg opin fyrir öll fjarskiptafyrirtæki til að bjóða þjónustu sína yfir. Uppbygging innviða frá símstöð og inn til notenda dugar þó ekki ein og sér. Hraðinn þarf að skila sér áfram á svokölluðum stofnleiðum sem liggja milli símstöðva, milli landshluta og áfram til útlanda. Samhliða uppbyggingu frá símstöð heim til notenda er Míla að byggja upp þau kerfi sem þarf til að tryggja næga flutningsgetu stofnleiða svo þörf heimila fyrir háhraðanetstengingu skili sér alla leið heim í stofu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Mílu

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.