Orkumálinn 2024

„Litla liðið okkar með stóra hjartað“ er í vanda statt

Huginn knattspyrnulið Seyðfirðinga hefur ekki heimavöll og ekkert æfingasvæði heima fyrir. Huginn vann 2.deildina 2015 og og lék því í Inkasso deildinni 2016. Liðið féll „eftirminnilega“ úr þeirri deild í fyrra og spilar nú í 2.deild. Eftir 11 umferðir ( 17/7) er liðið að berjast í toppnum og hefur einungis tapað einum leik.


Huginn leikur alla sína heimaleiki og æfir á Fellavelli handan Fjarðarheiðar á Egilsstöðum. Knattspyrnudeild Hattar á Egilsstöðum sem spilar í sömu deild og Huginn á þakkir skyldar fyrir að hjálpa upp á nágranna sína „í neðra“ með því að leigja þeim afnot til æfinga og keppni á Fellavelli. Huginn hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni í ár eða 8 og er markahlutfall þeirra langbest allra liða eða +15. Á meðan staðan er svona hjá liðinu og Brynjari þjálfara er ekki að sjá að heimavöllurinn við Garðarsveg á Seyðisfirði verði nothæfur þar sem hann verður að teljast „ónýtur“.

Á stríðsárunum 1941-44 var herstöð Bandamanna með fjölmennt herlið á Seyðisfirði og Braggahverfi var sett upp á vallarsvæðinu. Þrátt fyrir ýmsar lagfæringar í gegnum árin, sem flestar hafa verið gerðar af vanefnum, hefur völlurinn verið mjög lélegur og alls ónothæfur nú sl. 2-3 ár. Braggagrunnarnir leynast enn víða undir í vallarstæðinu. Fullreynt er að fara í skemmri yfirborðsaðgerðir sem ekki hafa lukkast.

Heimavöllurinn við Garðarsveg hefur verið sannkölluð ljónagryfja fyrir aðkomuliðin. Þau óttast því að þurfa að mæta Hugin á heimavelli. Þéttur og traustur stuðningshópur lætur vel í sér heyra.Oft glymur vel í á milli Bjólfs og Strandatinds á heimaleikjum.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar, Brynjar Þjálfari og leikmenn Hugins eiga miklar þakkir skyldar fyrir að leggja á sig mikla vinnu með frábærum árangri í harðri keppni við önnur lið í deildinni sem öll hafa miklu- miklu betri aðstöðu.

Hingað en ekki lengra. Seyðfirðingar vilja völlinn sinn við Garðarsveg í leikhæft stand. Það verður ekki gert nema farið verði í alvöru vallarframkvæmdir og það strax í haust.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar verður þar að taka forystu í samvinnu við bæjarfélagið og aðra áhuga aðila. Tökum nú höndum saman Seyðfirðingar hefjum heimavöllin við Garðarsveg upp úr „drullunni“ og tryggjum að „Litla liðið okkar með stóra hjartað“ geti spilað og æft á sínum heimavelli 2018. Það er stórt og krefjandi verkefni sem þolir enga bið. Fyrir æskuna og unga fólkið sem hér er að alast upp og aðra þá sem hingað vilja flytja með sínar fjölskyldur er öflugt íþróttalíf og góð aðstaða eitt af lykilatriðum.

Mætum þeim með því að standa saman um verkefnið. Áfram með heimavöllinn við Garðarsveg . Áfram Huginn.

F.h. Hugins-Býflugunnar (stuðningsfólks)
Þorvaldur Jóhannsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.