Jafnrétti er forsenda byggðar á Austurlandi

Ein stærsta áskorunin í byggðamálum í dag er kynjahalli á landsbyggðinni. Hann er raunverulegur og eitt helsta einkenni byggða í varnarbaráttu er að þar vantar ungar konur.


Um daginn hittust ungir Austfirðingar á fundi á Borgarfirði eystra og ræddu byggðamál og framtíð Austurlands. Allir þátttakendur á fundinum voru undir fertugu en hópurinn var engu að síður fjölbreyttur, fólk af báðum kynjum og úr öllum áttum. Umræðan endurspeglaði þetta, við ræddum svo óskaplega margt, kynjajafnrétti, sjálfbærni, menningu, samgöngur og svo mætti lengi telja.

Staðreyndin er sú að stefnumótun í byggðamálum hefur í gegnum tíðina fyrst og fremst verið á hendi miðaldra karla og miðuð við þarfir karla. Byggðastefna verður hins vegar að byggja á breiðari grunni. Þáttakaendur í samtalinu þurfa að vera fjölbreyttari og stefnan þarf að endurspegla þarfir allrar mannlífsflórunnar.

Atvinnulíf og þungaiðnaður er ekki það eina sem þarf að ræða þegar kemur að byggðastefnu. Að gera Austurland að góðum búsetukosti snýst um að gera samfélagið gott. Byggðamálaumræða á ekki alltaf að snúast um atvinnu. Það er mikla vinnu að hafa á Austurlandi og hún er vel borguð, það sem þarf að skoða er frekar hvað við gerum og hvernig okkur líður eftir vinnu.

Samfélögin okkar á Austurlandi eru of karllæg, ekki bara störfin heldur stemmingin. Í meistararitgerðinni minni skoðaði ég ástæður þess að konur ná síður kjöri í sveitarstjórn Borgarfjarðarhrepps en karlar og yfirfæri hér hluta af niðurstöðum þeirrar rannsóknar á Austurland í heild.

Allstaðar eru við líði ákveðin kynjakerfi sem móta samfélög og skipa fólki á bása eftir kyni. Á Austurlandi stendur kynjakerfið mjög styrkum fótum og það er ein af okkar stærstu áskorunum.

Karlar eru fleiri en konur á Austurlandi og þeir vinna betur launuð störf en konur. Starfsreynsla karla er metin meira en kvenna og kynjahlutverk eru fastmótuð í samfélaginu. Ég tel líka að tengslanet karla á Austurlandi séu mjög sterk, ekki hvað síst í sjávarútvegi. Það sem ég komst að í minni rannsókn er að 75% þeirra karla sem búa á Borgarfirði eru uppaldir á staðnum en aðeins 47% kvenna. Þetta gæti átt við víðar og þýðir að karlar hafa þá sterkari rætur í samfélaginu en konur.

Þetta eru grundvallarástæður þess að konur finna sig síður á Austurlandi en karlar. Lykillinn að því að búsetuþróun geti verið jákvæð á Austurlandi er að konur vilji vera hér, að stelpur sjái fyrir sér framtíð í heimabyggð, konur hafi hlutverk og þeim líði vel.

Ég vil ungt Austurland, ég vil grafa undan kynjakerfinu.

Greinin er sú fyrsta í greinaskrifaátaki ungra austfirðinga. #UNGAUST
Höfundur er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu og diplómu í hagnýtri jafnréttisfræði

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.