Ingibjörgu á þing fyrir Austurland

Við undirrituð viljum hvetja sem allra flesta Austfirðinga sem og kjósendur í öllu Norðausturkjördæmi til að fylkja sér um V lista Vinstri grænna og tryggja þar með Ingibjörgu Þórðardóttur kennara við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað öruggt sæti á þingi.

VG á sem stendur tvo kjördæmakosna þingmenn í Norðausturkjördæmi og var hársbreidd frá því að ná þriðja manni inn síðast. Nú hafa kannanir að undaförnu sýnt vaxandi fylgi við VG og því hljóta að teljast góðar líkur á að þriðja sætið verði nú kjördæmakjörið þingsæti.

Ingibjörg er Austfirðingur í húð og hár, hefur búið allt sitt líf á Austurlandi fyrir utan nokkur ár á Akureyri þar sem hún stundaði sitt nám. Hún hefur verið farsæll kennari við Verkmenntaskóla Austurlands í 20 ár, virk í félagsmálum og öflug baráttumanneskja fyrir jafnrétti kynjanna, umhverfisvernd og hagsmunum landsbyggðanna svo nokkuð sé nefnt. Ingibjörg hefur tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður og þá meðal annars látið til sín taka í sambandi við há fargjöld í innanlandsflugi.

Með Ingibjörgu sem þingmann munu Austfirðingar eignast öfluga rödd og unga og kraftmikla baráttukonu á þingi sem við, sem hana þekkjum, vitum að leggur sig alla fram. Nú er lag að breyta til og leggja grunn að breyttri stjórnarstefnu, traustri félagslega sinnaðri og byggðavænni ríkisstjórn undir forustu Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra og tryggja Ingibjörgu Þórðardóttur um leið öruggt þingsæti.

Skarphéðinn Þórisson, líffræðingur, Egilsstöðum
Þórdís Pála Reynisdóttir, fasteignasali, Eskifirði
Þórhalla Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Norðfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.