Hvers vegna sögðum við nei

Á bæjarstjórnarfundi í dag, samþykkti meirihluti bæjarstjórnar að ganga til samninga við Íþróttafélagið Hött um viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Í verkefninu felst aðallega bygging fimleikasalar, auk breytinga á starfsmannaaðstöðu og búningsklefum í húsinu. Uppgefinn kostnaður vegna verksins er 202 milljónir króna sem sveitarfélagið greiðir á fjórum árum. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn samningnum og ég vil í fáum orðum segja frá því hvers vegna.


Við erum ekki...

...á móti uppbyggingu íþróttamannvirkja.

...á móti starfi fimleikadeildar Hattar.

...blind fyrir því hversu miklu íþróttastarfið innan sveitarfélagsins skilar okkur beint og óbeint.

...ósammála því að um þarfa og góða framkvæmd sé að ræða.

...andvíg því að byggður verði fimleikasalur.

...mótfallin því að Höttur verði samstarfsaðili sveitarfélagsins um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

 

En sem fulltrúar í bæjarstjórn erum við kosin til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og við viljum standa undir því trausti sem okkur er sýnt og sýna eðlilega aðgát þegar um stóra fjárhagslega hagsmuni er að ræða. Við teljum ekki tímabært að ganga frá samningi um verkefnið núna og þar kemur fyrst og fremst tvennt til.

 

Ófullnægjandi undirbúningur

Í fyrsta lagi þá eru þær kostnaðaráætlanir sem liggja samningnum til grundvallar ófullnægjandi. Það er okkar mat að það sé óeðlilegt að ganga til samninga um verkefni áður en hönnun þess liggur fyrir og með því grundvöllur til að gera trúverðuga kostnaðaráætlun. Í raun er þetta viðurkennt í samningnum, því þar eru gerðir fyrirvarar við að hægt sé að hætta við allt saman ef kostnaðurinn fer fram úr því sem nú er talið.

En er það eðlilegt að setja penna á blað án þess að grunnforsendur samningsins liggi fyrir? Við teljum að svo sé ekki. Og þó að fyrirvarar séu í samningnum þá taka þeir ekki til þess sem við teljum einnig fulla ástæðu til að ganga ekki til samningsgerðar á þessu stigi.

 

Það er fleira sem þarf að byggja

Síðari ástæðan er sú að við stöndum á árinu frammi fyrir því að geta ekki tekið við öllum þeim leikskólabörnum sem við viljum geta gert. Íbúum sveitarfélagsins fjölgar, en það er bráðnauðsynlegt að tryggja okkur betur í sessi sem búsetuvalkost. Þar gegnir framboð leikskólaplássa lykilhlutverki. Fræðslunefnd var fyrr á árinu falið að skoða hvernig bregðast megi við og fyrir liggur að til eru teikningar af viðbyggingu við leikskólann Hádegishöfða. Slík viðbygging, hvort sem hún verður framkvæmd í einum áfanga eða fleiri, myndi létta róðurinn verulega varðandi laus pláss á leikskólum sveitarfélagsins.

Fræðslunefnd hefur ekki lokið sinni skoðun á málinu. Ekki hefur verið formlega unnið með teikningar að viðbyggingu við Hádegishöfða og ekki liggur fyrir hver kostnaður við slíka byggingu getur orðið og á hver löngum tíma hægt er að ráðast í verkið.

 

Við viljum vinna málið áfram

Meðan þessi staða er uppi telja Framsóknarmenn í bæjarstjórn ekki forsvaranlegt að skuldbinda verulegan hluta alls áætlaðs framkvæmdafjár sveitarfélagsins til fjögurra ára í viðbyggingu við íþróttamiðstöðina.

Á bæjarstjórnarfundinum í dag lögðum við til að í stað þess að staðfesta samninginn við Hött verði áfram unnið með félaginu á grundvelli nýrrar viljayfirlýsingar, hönnun kláruð og kostnaðaráætlun gerð svo það séu forsendur til þess að ganga til samninga. Jafnframt verði unnið að undirbúningi viðbyggingar við Hádegishöfða og ákvörðun um framkvæmdirnar teknar samhliða með hliðsjón af því hvar bráðasta þörfin liggur og hvernig unnið verði að framkvæmdunum með sem hagkvæmustum hætti.


Þessi tillaga okkar var felld, hvers vegna veit ég ekki. Ég hef að minnsta kosti ekki ennþá heyrt skynsamleg rök fyrir því að vinna málið eins og meirihlutinn kýs að gera það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.