Hvers vegna býð ég mig fram?

Ég sat á hesti (hann var ekki hvítur) þegar síminn hringdi. Ágætur maður í símanum fékk ekki þá athygli sem hann átti skilið því að ég þurfti að blístra á hundana og reyna að sjá til þess að rollurnar færu ekki á veg allrar veraldar. En á endanum náði ég erindinu.

Hvort ég væri tilbúinn að fara í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í komandi þingkosningum? Ég sagði ekki já strax. Slíkar spurningar og svör við þeim þarf að ræða við sína nánustu. En nú liggur fyrir hvert svarið er. Ég er kominn í framboð og ég er tilbúinn að setjast á Alþingi.

Flokkur landsbyggðarinnar
Ég dró mig út úr starfi Framsóknarflokksins fyrir nokkrum árum síðan. Ég sagði mig meira að segja úr flokknum á tímabili. En það var ekki vegna þess að ég vildi starfa með einhverjum öðrum flokki. Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega alltaf verið sá flokkur sem hefur verið tilbúinn að tala máli hinna dreifðu byggða. Hann er ófeiminn við að berjast fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar og er stoltur af uppruna sínum. Framsóknarflokkurinn stendur með bændum og landbúnaði, útgerð og atvinnulífi á litlum stöðum og talar fyrir því að færa opinber störf út á land enda er það það bæði réttlátt og skynsamlegt.

Gott að koma heim
Ég vil berjast fyrir hagsmunum dreifbýlisins. Mér líður því ákaflega vel með það að vera genginn aftur formlega til liðs við minn gamla flokk og það góða fólk sem saman skipar lista Framsóknarflokksins fyrir komandi þingkosningar. Ég vil fá tækifæri til þess að vera ykkar fulltrúi á Alþingi og bið um ykkar stuðning. Setjið X við B á kjördag.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.