Hvernig Andri Snær breytti lífi mínu

Þann 25. júní kjósa Íslendingar sér nýjan forseta. Mikilvægt er að kosningaþátttaka verði góð svo að þjóðin geti staðið með lýðræðislegri niðurstöðu. Ég er nú stödd í Healing í Englandi og verð ekki komin heim fyrir kjördag en kaus að sjálfsögðu áður en ég fór af landi brott.


Valið var ekki flókið fyrir mér. Það er ekki oft sem mér hefur staðið til boða að kjósa einstakling sem hefur breytt lífi mínu en það hefur Andri Snær Magnason gert þrátt fyrir að ég þekki hann ekki persónulega og hafi aðeins einu sinni hitt hann.


Kynni mín af Andra Snæ hófust um síðustu aldamót þegar ég las Söguna af bláa hnettinum fyrir dóttur mína. Við mæðgur grétum yfir bókinni líkt og ég gerði síðar með syni mínum. Þetta er fallegasta íslenska barnabók sem ég hef lesið og hinn sterki boðskapur situr í lesendum á öllum aldri.

 

Ljóð Andra Snæs, smásögur og skáldsögur hafa einnig haft mikil áhrif á mig. Sérstaklega vil ég nefna hina bráðfyndnu og háfemínísku sögu Sjóarinn og hafmeyjan sem er ein besta smásaga sem ég hef lesið. Auk femíníska vinkilsins fjallar sagan um umhverfisvernd, einkum verndun hafsins. Skáldsögurnar LoveStar og Tímakistan hafa einnig sterkan boðskap og höfða jafnt til fullorðinna og ungmenna um heim allan.

 

Lífið eftir Draumalandið

 

Bókin sem breytti lífi mínu var þó Draumalandið. Ég einfaldlega hugsaði lífið og framtíðina með öðrum hætti eftir Draumalandið. Ég mat lífið með nýjum mælitækjum og ákvað að leggja baráttunni fyrir betri heimi lið. Eftir Draumalandið lít ég fremur á mig sem jarðarbúa en Evrópubúa, Íslending eða Norðfirðing. Lífið á ekki að meta í krónum og aurum heldur í mannlegum gildum.
Andri Snær er langbesti kosturinn. Hann stendur fyrir jafnrétti, umhverfisvernd, frið og hann stendur fyrir framtíðina.

 

Höfundur er framhaldsskólakennari í Neskaupstað

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.