Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Undanfarin ár hef ég fylgst af aðdáun með þeim krafti og áræðni sem hefur drifið áfram hraða uppbyggingu í ferðaþjónustu á fjölmörgum stöðum á Norður- og Austurlandi. Þrátt fyrir að landshlutinn búi við mun lakari kjör varðandi dreifingu ferðamanna en Suðvesturhornið má hvarvetna sjá ný fyrirtæki, ný störf, fjárfestingu og snjallar hugmyndir til að nýta ný tækifæri.


Allt gerist þetta vegna þess að fólkið á svæðinu hefur trú á því að ferðaþjónusta bæti einhverju við samfélagið. Með því að fara úti í þjónustu við ferðamenn eru grunnatvinnuvegir styrktir því bæði bein og afleidd þjónusta dafnar um leið og störfum fjölgar. Með því eru möguleikar á áframhaldandi búsetu auknir því byggðafesta verður meiri.

En til þess að slík starfsemi geti blómstrað þarf stöðugt rekstrarumhverfi og trygga samkeppnishæfni. Fyrir svæði eins og Norðausturland þar sem ferðamenn þurfa flestir að fara langa vegu frá komustað til að njóta þeirrar fegurðar og afþreyingar sem svæðið býður upp á, skiptir þetta jafnvel enn meira máli en fyrir þá sem hafa aðgang að stöðugri straumi ferðamanna.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun hafa mikil og neikvæð áhrif, sérstaklega á svæðum fjarri Suðvesturhorninu. Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna á landinu í heild hefur afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnað milli ára og mörg fyrirtæki standa nú þegar höllum fæti. Gengi krónunnar hefur haft mjög erfið áhrif á samkeppni við önnur lönd og margar ferðaskrifstofur erlendis eru nú þegar farnar að líta í kring um sig til annarra ódýrari áfangastaða í stað Íslands.

Tökum rétta ákvörðun – tryggjum sjálfbærni

Í slíku ástandi er svo stór skattahækkun á ferðaþjónustuna röng ákvörðun. Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.

Ég hvet ferðaþjónustuaðila til að láta heyra í sér, hafa samband við þingmenn og ráðherra og koma staðreyndum um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar milliliðalaust á framfæri. Það er gríðarmikilvægt að við stöndum saman gegn áformum um skattahækkanir á þessa mikilvægu atvinnugrein sem hefur skipt sköpum fyrir fjölmarga staði á landsbyggðinni undanfarin ár. Tryggjum framtíð og sjálfbærni ferðaþjónustunnar og verjum störfin sem hún skapar.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.