Gangamál Seyðfirðinga

Umræðan um gangagerð Seyðfirðinga er ekki ný af nálinni og hefur farið marga hringi á síðustu árum. Þess vegna er umræðan orðin frekar ruglingsleg og ýmsu hefur verið fleygt fram sem stenst hvorki skoðun né rök. Við skulum skoða málið nánar.


Umræðan

Alveg frá því að umræðan um göng frá Seyðisfirði hófst hefur oftast verið deilt um tvær leiðir, það er:

1. Ein göng undir Fjarðarheiði. Það eru Fjarðarheiðargöng sem myndu tengja Seyðisfjörð og Fljótsdalshérað saman.

2. Þrenn göng, svokölluð T-göng, sem myndu tengja Norðfjörð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjörð með miðpunkti í Mjóafirði. Þá yrðu boruð ein göng undir Mjóafjarðarheiði til Eyvindarárdals, önnur göng frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og svo þriðju göngin frá Mjóafirði yfir í Norðfjörð. Þessi göng mynda T á landakorti og eru þess vegna kölluð T-göng (sjá mynd).

Rétta leiðin

Á sínum tíma var hart tekist á um hvora leiðina ætti að fara en árið 2011 leit skýrsla frá Vegagerðinni dagsins ljós þar sem verkfræðistofan Efla mat hvora leiðina væri skynsamara að fara. Niðurstaða Eflu er afgerandi en ljóst er að Fjarðarheiðargöng, nefnd leið nr. 1 hér fyrr í greininni, eru rétti kosturinn þegar kemur að því að leysa samgönguvanda Seyðfirðinga (sjá mynd).
Þá er einnig gott að halda því til haga að á aðalfundi SAA, í september árið 2017, var eftirfarandi ályktun lögð fram:

„Tryggja verður, á fjárlögum næsta árs, fjármagn til jarðganga undir Fjarðarheiði á milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar, sem er forgangsverkefni í jarðgangagerð á Austurlandi ...“
Það virðist því liggja morgunljóst fyrir að Fjarðarheiðargöng eru a) rétta lausnin á samgönguvanda Seyðfirðinga og b) forgangsverkefni í jarðgangagerð á Austurlandi. Hvert er þá vandamálið? Um þetta virðist ríkja einhugur meðal sveitarfélaga á Austurlandi, eða hvað?

Andstaða frá Fjarðabyggð

Nei, því miður er það ekki svo. Nágrannar okkar í Fjarðabyggð hafa, þrátt fyrir allt sem hér hefur verið nefnt, alls ekki stutt Seyðfirðinga heilshugar í fyrirhugaðri jarðgangagerð þeirra undir Fjarðarheiði. Sumir ráðamenn og aðrir í Fjarðabyggð eru enn að tala fyrir svokölluðum T-göngum, þrátt fyrir áðurnefnda ályktun SSA (en Fjarðabyggð var eitt af sveitarfélögunum sem samþykktu þessa ályktun) og greiningu Eflu frá árinu 2011. Það er þó mikilvægt að nefna eitt í þessu samhengi.

Ég held að það séu fáir á móti því að einn daginn yrðu boruð göng sem myndu tengja Norðfjörð og Seyðisfjörð með miðpunkt í Mjóafirði. Athugið! Ég vek athygli á því að hér er ég ekki að tala um áðurnefnd T-göng. Ég er einungis að tala um tvenn göng sem myndu fara frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og frá Mjóafirði yfir í Norðfjörð og þar með loka „hringnum“ (að því gefnu að Fjarðarheiðargöng séu orðin að veruleika). Um þetta virðist líka ríkja sátt meðal sveitarfélaga á Austurlandi. Á áðurnefndum aðalfundi SSA var einnig ályktað um að „ráðast í rannsóknir á öðrum gangakostum, á milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð.“

Þetta gerir afstöðu sumra í Fjarðabyggð, um að T-göng séu rétti kosturinn, með öllu glórulausa. Af hverju í ósköpunum geta þessir aðilar ekki stutt Seyðfirðinga heilshugar í að bora göng undir Fjarðarheiði – sem öll gögn benda á að sé eini rétti kosturinn í stöðunni? Í stað þess að tala tóma steypu um gangagerð Seyðfirðinga þá skora ég á þá, sem eru á þeirri skoðun að T-göng séu betri kostur en Fjarðarheiðargöng, að leggja fram greiningar og gögn máli sínu til stuðnings!

Eiginhagsmunasemi og hrepparígur

Ég kann ekki frekari deili á því af hverju sumir í Fjarðabyggð hafa þessa skoðun, kannski er það eiginhagsmunasemi eða gamli „góði“ hrepparígurinn? Það er þó kannski ekki það sem er mikilvægast hér. Heldur er það frekar sú staðreynd að Fjarðabyggð virðist ekki geta stutt heilshugar við bakið á Seyðfirðingum í þessu stóra baráttumáli þeirra sem eru bættar samgöngur, það er virkilega sorglegt. Of oft höfum við íbúar á Austurlandi horft upp á það í fjórðungnum okkar að sveitarfélög geta ekki stutt við bakið á hvert öðru. Þetta er óþolandi og af þessu er mikil skömm fyrir alla íbúa á Austurlandi.

Staðreyndin er sú að sveitarfélög á Austurlandi verða að standa saman og vinna saman ef fjórðungurinn á að lifa af um ókomna tíð. Framtíðin felur í sér aukna sameiningu á sveitarstjórnarstiginu og þar af leiðandi aukna samvinnu á milli sveitarfélaga.

Gauti Skúlason, ungur Austfirðingur.

sfk gong gauti kort


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.