Er lengra austur en suður?

„Það er bara sumum sem þykir miklu lengra austur en suður,“ sagði fótboltaþjálfarinn sem ég átti gott samtal við í vikunni – en ég var bæði að ræða við hann sem blaðamaður og foreldri um góðan árangur 5. flokks drengja í Fjarðabyggð/Leikni, en þeir eru komnir í úrslit í Íslandsmótinu með því að vinna sinn riðil sem spilaður er á Austur- og Norðurlandi. Reyndar eru yngri flokkarnir í minni heimabyggð búnir að standa sig gríðarlega vel í sumar, allir sem einn.

Auðvitað erum við foreldrar himinlifandi yfir góðum árangri „strákanna okkar“, en allavega fyrir mitt leyti fann ég hvernig kvíðahnúturinn í maganum stækkaði enn frekar þegar ég áttaði mig á því að hann kostaði enn eitt ferðalagið í sumar og nú til Reykjavíkur.

Þeir hafa spilað í riðli með Hetti, KA 1&2, Þór og Kormáki/Hvöt, en það hefur kallað á tíð ferðalög auk þeirra móta sem hafa einnig komið inn í. Ég held ég sé ekki að ýkja þegar ég fullyrði að sumarið hafi kostað foreldra vel á annað hundruð þúsund krónur fyrir iðkanda.

En bara, „Fake it 'till you make it“ eins og maðurinn sagði. Auðvitað brosti ég stolt og gerði mér upp mikil og góð fjárráð. Hef því sjaldan verið eins fegin og þegar ég sá póst frá okkar frábæra þjálfara þess efnis að úrslitin hefðu fengist austur og færu fram á Norðfjarðarvelli um helgina. Halelúja! Vá, mér leið eins og ég hefði unnið í happdrætti. Ok, allavega happaþrennu. Sé jafnvel fyrir mér að geta keypt í matinn út mánuðinn vegna þessa!

Þegar ljóst var að við kæmumst alla leið var sótt um til KSÍ að fá að halda keppnina í Fjarðabyggð. Umsóknin var tekin fyrir, metin og í ljósi þess hve langt síðan sambærilegir leikir voru spilaðir fyrir austan varð niðurstaðan þessi.

Eftir að þetta var tilkynnt fóru línurnar að loga hjá okkar manni, þjálfaranum altso. Þeir þarna fyrir sunnan voru ekki á eitt sáttir, þjálfarar og aðstandendur. Sumir. Ekki allir.

Þetta er svo mikið vesen. Dýr gisting. Ekki nógu margir matsölustaðir. Vellirnir eru ómögulegir. Umfram allt er þetta svo langt og dýrt ferðalag. Svo dýrt að mótherjar okkar buðust til að slá saman í flugfar fyrir austantjaldsbúana.

„Kemur ekki til mála,“ sagði okkar maður. Og við það situr, stendur og liggur. Úrslitakeppnin fer fram hér. Á Norðfjarðarvelli. Á morgun og hinn.

Já. Við skiljum vel þessi sjónarmið. Ósköp vel meira að segja. Það þarf ekki að kynna það fyrir okkur hve dýrt það er að ferðast með börnin þvert yfir landið til þess að keppa. Aha. Við vitum það. Við erum alltaf að þessu. Þetta sökkar. En, það er í lagi að hafa sanngirni svona annað slagið. Að við fáum að bjóða heim, ekki alltaf að spila útileiki. Eins undarlega og það virðist hljóma, þá er nefnilega alveg jafn langt austur og suður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.