Orkumálinn 2024

Ekki vera Ragnar

Nýverið sendu 306 konur frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýstu kynferðislegu áreiti og ofbeldi innan íslenskra stjórnmála. Það er gríðarlegur fjöldi og sýnir hversu útbreiddur vandinn er. Fjöldi kvenna og fjöldi sagna er vissulega sláandi en hann kemur sennilega fæstum konum á óvart. Ég þekki sjálf enga konu sem hefur aldrei verið áreitt af karlmanni á einn eða annan hátt. Vandinn er víðtækur og umfangsmikill. Við vitum það. En hvað svo?

Sama kvöld og yfirlýsingin birtist mættu þrjár fyrrverandi og núverandi stjórnmálakonur í Kastljósið til að ræða þessi mál. Einlægar, sterkar og líka svolítið hræddar, eins og þær viðurkenndu fúslega. Eðlilega.

Eftir þáttinn drífur Ragnar nokkur Önundarson sig á samfélagsmiðla, grefur upp fallega andlitsmynd af einni konunni úr þættinum og ýjar að því að hún sé að biðja um áreiti með svona myndbirtingu.

Ragnar er vandamálið í hnotskurn. Hann fann sig knúinn til að bregðast við framtaki kvennanna með því að reyna að gera lítið úr einni þeirra. Viðhorfið sem hann lýsti til ungra kvenna í stjórnmálum hefði ekki getað lýst þessari meinsemd betur. Gamall karl í Garðabæ sem telur unga konu vera að senda sér einhver skilaboð með því að birta mynd af andlitinu á sér á internetinu. Hann telur sig mega (og jafnvel eiga að) tala um hana með niðrandi hætti. Túlkun Ragnars á aðstæðunum sýnir viðhorf gamalla prumpukarla til kvenna, að með því að hafa sig frammi í stjórnmálum gefi konur þeim leyfi til að skipta sér af útliti, klæðaburði og fasi.

Áreiti er valdníðsla. Það dregur úr mætti kvenna, ekki styrk þeirra heldur úthaldi. Að þegja og harka af sér tekur toll. Það er kvíðavaldandi og fælir konur frá því að taka skref í átt að frama. Þannig veldur það því að meirihluti þeirra sem taka ákvarðanir um líf og störf okkar allra eru karlar. Menningu stjórnmálanna er viðhaldið. Kynjakerfið nær svo auðvitað langt út fyrir stjórnmálin, það er vandamál í öllum starfsstéttum, í öllum samfélögum. Fyrir tæpum tveimur árum skrifaði ég pistil hér í blaðinu sem lýsti kynferðislegri áreitni yfirmanns á fyrsta vinnustaðnum mínum. Í kjölfarið heyrði ég frá fjölmörgum konum víðsvegar um landið, sem höfðu upplifað svipað í sambærilegum störfum.

Konur um allan heim stíga nú fram og segja frá áreiti í starfi. Það eitt og sér dugir þó ekki til. Karlar þurfa að axla ábyrgð. Endurskoða framkomu sína, hætta að fara yfir mörk. Beita sér þegar aðrir karlar gera það. Biðjast afsökunar, láta segjast og umfram allt hlusta þegar konur lýsa því hvernig framkoma þeirra veldur þeim vanlíðan, þegar þær biðjast undan athugasemdum um útlit sitt og fas. Að karlar hætti að setja orku í að sanna sitt eigið sakleysi og fari að berjast gegn vandanum almennt. Það er fyrsta skrefið að viðurkenna hann. Þetta snýst nefnilega ekki um einangruð atvik og eiginlega ekki einu sinni einstaka menn. Þetta snýst um menningu. Karlamenningu sem viðheldur kynjamisrétti. Hvergi eru konur algjörlega lausar við áreiti. Það helst í hendur við að þær fá lægri laun, verða síður yfirmenn og að færri konur en karlar stjórna innan fyrirtækja og stofnana.

Áreiti útilokar reynsluheim kvenna frá valdi og ákvarðanatöku. Það bitnar á samfélaginu öllu. Ekki bara konum.

Greinin birtist fyrst í Austurglugganum 24. nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.