Orkumálinn 2024

„Ekki núna. Bara seinna.“

„Guð minn góður. Story of my life,“ sagði vinkona mín, búsett á höfuðborgarsvæðinu, við mig og beindi mér inn á snjallforritið Snapchat þar sem hún lýsir í vídeómyndskeiði seinniparti dags í sínu lífi þar sem hún var í fullu starfi „leigubílstjóra“ eigin heimilis.

Ég er fædd og uppalin hér fyrir austan, bjó svo í Reykjavík um 13 ára skeið og kom svo aftur heim. Ég væri að ljúga því að ég hefði verið spennt fyrir því á sínum tíma að koma aftur til baka enda varð ég borgarbarn á einni nóttu og leið mjög vel fyrir sunnan þessi ár.

Enn blundar í mér að færa mig um set, fara í eitthvað stærra. Þessar dillur tek ég reglulega en þær enda yfirleitt á sama hátt – ég rökræði við sjálfa mig og kemst að sömu niðurstöðu: Ekki núna, bara seinna. Þegar þú ert orðin stór. Og með færri börn til þess að halda utan um.

Það er margt sem ég sakna frá Reykjavík, til dæmis kaffihúsanna, miðbæjarins og almennrar þjónustu. Já, líka vina og vandamanna. Mér þætti frábært að geta sest inn á Eymundsson, pantað mér Chai latté, sótt mér fullt af blöðum og bókum og gleymt mér. Besta núvitundaræfing í heimi. Vera bara og njóta. Eða taka Laugarvegsrölt á köldum desemberdegi. Einnig beinum aðgangi að barnafataverslunum. Og allt hitt þið vitið. En umferðarinnar, vegalengdanna og streitunnar sem því fylgir sakna ég ekki.

Vinkona mín er margra barna móðir, rétt eins og ég. Nema hún á enn fleiri. Þennan dag var hún stanslaust að skutla og sækja þessar elskur í íþróttir og aðrar tómstundir. Rúnturinn hófst klukkan hálf fjögur og þau voru komin heim klukkan korter í sjö. Örmagna. Þarna var hún ekki að lýsa einhverjum einstökum seinniparti, heldur bara eins og þeir eru flestir virka daga.

Mín seinnipartssaga er á þessa leið: Ég hendist í búð áður en ég sæki barnið. Þar er ég ekki meira en í tíu mínútur. Er komin á leikskólann fimm mínútur í fjögur og heim klukkan fimm mínútur yfir fjögur. Á milli fjögur og sex er gæðastund. Já, ég sagði það. Ok, kannski með „úlfatíma-ívafi“, en svo klárlega gæðastund miðað við það sem margar vinkonur mínar upplifa í Reykjavík á sama tíma.

Við græðum þrjá tíma á dag og það er algerlega ómetanlegt. Ég sest niður með mínum tveggja og hálfs árs gamla dreng og við bara „tjillum“. Hitum „okkur“ kaffi, borðum epli, horfum á ÚmíSúmí og ræðum málin sem að mestu snúast um að ég set kerruna aftur og aftur á dráttarvélina hans og finn fyrir hann bangsann. Oft fáum við líka gesti, annaðhvort fjölskylduna eða vinkonur mínar með börn. Það er best.

Eldri börnin hlaupa inn og út og oftar en ekki með vini sína með sér. Þau koma sér sjálf á allar sínar æfingar og tómstundir enda allt við bæjardyrnar. Auðvitað hafa þau ekki sama val og jafnaldrar þeirra á stærri stöðum en einfaldleikinn kemur á móti.

Ég er ekki að dæma að það sé verra eða betra að búa hér eða þar enda talsmaður þess að enginn staður sé öðrum fremri, fer bara eftir því hvar þér og fjölskyldunni líður best og hvað hentar. Átti bara svo mikið „ahhh, þetta er ástæðan fyrir því að mér líður vel fyrir austan“ andartak þarna um daginn þegar ég fékk skilaboðin úr borginni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.