Bekkur og tré

Á dögunum keyrði ég ein frá Neskaupstað til Reykjavíkur í yndislegu veðri. Einhverjum kann að finnast rúmlega 700 km ökuferð óskemmtileg en mér finnst fátt notalegra en að keyra um landið í góðu veðri. Mér finnst meira að segja Oddsskarðið skemmtilegt, en bara á sumrin, ekki í þoku. Ríkisútvarpið er góður ferðafélagi og fræðandi og svo syng ég með þegar Læda slæda er spilað enn einu sinni. Ég stoppa reglulega til teygja úr mér og njóta veðursins og náttúrunnar.


Yfirleitt fer ég suðurleiðina en í þetta sinn átti ég erindi í Skagafjörðinn og fór því norður fyrir. Það er allt önnur upplifun að keyra norðurleiðina. Landslagið er gjörólíkt, umferðin mun minni og ferðamenn ótrúlega fáir. Ég stoppa stundum við skilti með mynd af bekk og tré. Þar er stundum bekkur en sjaldan tré. Við þessa stoppustaði má yfirleitt sjá merki þess að ferðafólk hafi gert þarfir sínar þar. Í fyrstu kemur nöldrarinn upp í mér og ég heyri sjálfa mig tuða yfir þeirri ósvífni að kúka þarna úti í náttúrunni. En hvað á fólk að gera? Það er bara ekki einfalt að stilla ferðir sínar inn á að þurfa að kúka þar sem er klótsett.

Þegar ég stoppa við skilti sem sýnir bekk og tré finnst mér gott að hafa bekk en mér finnst ég ekkert svikin þó það sé ekki tré. Ættu þessi skilti ekki frekar að vera með mynd af bekk og klósetti?

Ferðaþjónusta er orðin langstærsta atvinnugrein landsins og hún skilar miklum fjármunum í ríkissjóð. Það getur ekki verið svo brjálæðislega dýrt að setja klósett þar sem á að vera tré. Svo er það örugglega gefandi og skemmtilegt sumarstarf að keyra t.d. á milli Egilsstaða og Mývatns og þrífa klósett og fylla á pappírinn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.