Austurland – aftarlega á merinni?

Á ferðum mínum um Austurland undanfarin misseri hefur fólki verið tíðrætt um það hversu aftarlega á merinni landshlutinn sé þegar ríkisvaldið útdeilir gæðunum og að tengsl milli miðstöðvar ríkisvaldsins í höfuðborginni og Austurlands séu ansi lítil. Um þetta þarf ekki að deila, enda sýna tölulegar staðreyndir með óyggjandi hætti að svona er í pottinn búið.

En hvernig ráðum við bót á þessu? Með því að kjósa til valda enn og aftur þá flokka sem með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi bera ábyrgð á því hvernig komið er? Með því að kjósa flokkana sem haldið hafa um stjórnartaumana til skiptis undanfarna áratugi? Með því að kjósa flokkana sem tókst að finna tugi eða hundruð milljarða á nokkrum dögum, fimm vikum eftir að þeir lögðu fram eitt mesta fjársveltisfumvarp sem lagt hefur verið fram í góðæri? Með því að kjósa flokka sem þiggja háa styrki frá hagsmunaaðilum í ákveðnum atvinnugreinum? Eigum við að kjósa einstaklinga sem engin tengsl hafa við kjördæmið, og landsbyggðir yfirleitt, og þekkja ekki til aðstæðna? Eigum við að kjósa riddara á hvítum hesti sem ávaxtar sitt pund á betri kjörum en almenningur í landinu?

Þriðjudaginn 10. október lögðum við Píratar fram eigin fjárlög, svokölluð skuggafjárlög, og mun það vera í fyrsta sinn sem íslenskur stjórnmálaflokkur stígur slíkt skref. Þar kemur fram vilji okkar til að bæta ríflega 10 milljörðum við í heilbrigðiskerfið, til öryrkja, fatlaðra og í málefni aldraðra. Auk þess viljum við leggja tæpa 15 milljarða við viðbótar í húsnæðisstuðning og samgöngur og fjarskipti, sem yrði mikil lyftistöng fyrir Austurland. Auk þess gerum við ráð fyrir auknu framlagi til fjölmargra annarra málaflokka, s.s. menntamála, umhverfismála, nýsköpunar o.s.frv.

Við lögðum ekki bara fram kosningaloforð um aukin útgjöld, heldur lögðum við einnig fram kosningaloforð um það hvernig fjármagna má þessi útgjöld án þess að almenningur þurfi að axla meiri byrðar en nú er.

En snúum okkur að Austurlandi og áherzlumálum Pírata fyrir þann landshluta.

Uppbygging innviða, hvaða nafni sem þeir kunna að nefnast, er í algjörum forgangi. Píratar vilja tryggja viðunandi almenningssamgöngur til allra þéttbýlisstaða á landinu og að jafna aðgengi allra íbúa landsins að grunnþjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu og menntun, óháð búsetu. Með stórbættum samgöngum má stuðla að betri dreifingu ferðamanna sem losar um spennu á suðvesturhorni landsins og eykur hagsæld alls staðar á landinu, auk þess að minnka álag á þeim ferðamannastöðum sem eiga í vök að verjast vegna mikils ágangs.

Í þessu samhengi má nefna skozku leiðina svokölluðu og jöfnun á verði flugvélaeldsneytis. Með slíkum aðgerðum yrði grunnur lagður að meiri hreyfanleika íbúa Austurlands og Egilsstaðaflugvöllur yrði samkeppnishæfari við Keflavíkurflugvöll.

Píratar hafa líka talað fyrir því að gistináttagjald, sem verði hækkað og reiknað út sem hlutfall af verði gistingarinnar, verði eftir í því sveitarfélagi sem það fellur til. Auk þess viljum við færa sveitarfélögunum fleiri skattstofna, t.d. hluta af virðisaukaskatti, svo að þau sleppi úr hlutverki ölmusuþega og verði fjárhagslega sjálfbær.

Laugardaginn 28. október kjósa íbúar Austurlands um það hvort þeir vilja vera áfram aftarlega á merinni.

Höfundur er þingmaður og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.