Orkumálinn 2024

Allt er svo eymdarlegt án mín...

Tilkynningin í nýársávarpinu um að hann ætlaði að hætta var nokkuð skýr. Samt hvarf hann ekki út af borðinu. Fram kom fjöldi frambjóðenda sem virtust vart hafa trú á eigin framboðum miðað við hversu hljótt þau fóru eftir tilkynninguna. Eins var ljóst að ýmsir vænlegir kandídatar íhuguðu málið.


Það er ekkert ólýðræðislegt við setutíma forseta – svo framarlega sem kjósendur séu frjálsir í kjörklefanum. Það er lýðsins að meta hvenær tími einhvers sé liðinn með að kjósa hann ekki.

Það er heldur ekkert óeðlilegt við að einhverjir, jafnvel margir, skori á Ólaf Ragnar að sitja áfram. Hann nýtur enn mikils trausts sem hann hefur unnið sér inn með ýmsum gjörðum á 20 árum í embætti. Þrátt fyrir erfiðar kosningabaráttur hefur forsetum lýðsveldisins tekist að sameina þjóðina fljótt að baki sér eftir embættistöku.

Þeir voru til sem vildu halda í Kristján Eldjárn eða Vigdísi Finnbogadóttur þegar þau létu embætti. Reyndar virðist fjöldi sem enn væri til í að skora á Vigdísi að stíga fram. Hvernig ætli að Ólafi Ragnari hefði gengið í framboði gegn Vigdísi 1996? Eða jafnvel 2016? Ætli að hann hefði boðið sig fram?

Forsetinn og áskorendurnir

Huga verður að aflsmun sitjandi forseta gegn áskorendum. Þjóðin hlustar þegar forsetinn talar. Allir vita hver forsetinn er. En færri hafa hugmynd um hver Hildur Þórðardóttir eða Bæring Ólafsson eru eða hlusta á þegar þau hafa eitthvað fram að færa.

Framboðsfundir Höllu Tómasdóttur og Andra Snæs Magnasonar voru sendir út beint því þau buðu upp á það. Framboðsfundur Ólafs Ragnars var sendur út beint á stærstu miðlunum því þar talaði forseti lýðsveldisins. Tilkynning hans var stærsta fréttin í kvöldfréttatímunum.

Enginn annar frambjóðandi á séns á viðlíka kynningu.

Íslands eina von - Ólafur Ragnar Grímsson?

Ólafur Ragnar hefur sýnt mátt forsetaembættisins, sem samkvæmt hans túlkun hefur alltaf verið til staðar í stjórnarskránni. Völdin grundvallast meðal annars á ákvæðum um að forseti skipi ráðherra sem starfi í hans umboði, að Alþingi og forseti fari saman með löggjafarvaldið sem undirstrikað er með neitunarvaldi hans gagnvart lögum.

Ekki skal heldur gleyma 24. greininni sem hefst á orðunum „Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi.“ Sú grein reyndist forsetanum vel nýverið þegar hann stöðvaði gönuhlaup forsætisráðherra en skildi um leið lagaprófessora eftir gapandi hissa með því að neita að verða við þingrofi.

Hann gat þetta og gerði þetta – og hver ætlar að meta hvort hann mátti það?

Á framboðsfundi sínum á mánudag talaði forsetinn um að í „viðkvæmu ástandi“ þar sem enn „umrót“ eftir bankahrunið og „öldur mómæla,“ sambúð þjóðar og þings „þrungin spennu, væri enn spurn eftir „reynslu og kjölfestu“.

Sem er vissulega rétt. En það er líka spurn eftir breytingum.

Því er þú fórst þá ekkert í mér dó

Eitt af því sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert vel í embætti er að telja kjark í þjóðina. Eftir bankahrunið fór hann í viðtöl og varði málstað landsins erlendis, hann talaði tækifæri þjóðarinnar upp og með því að beita málsskotsréttinum í IceSave sýndi hann almenningi að hversu mikil áhrif hann getur haft á stjórn landsins milli kosninga. Forsetinn sýndi líka stjórnmálamönnum að það er ekki nóg að keyra mál í gegn í krafti þingmeirihluta.

En það var ekki minna óvissuástand þegar Kristján Eldjárn fór frá völdum 1980. Þingrofið fræga var 1974, þing entist í heilt kjörtímabil en svo bara eitt ár. Kosið var 1979, stjórnarmyndunarviðræður urðu erfiðar, svo mjög að Kristján íhugaði að skipa utanþingsstjórn.

Kristján steig til hliðar, forsetakosningarnar urðu þær tvísýnustu í lýðveldissögunni en þjóðin stóð eftir með forseta sem sagan hefur dæmt sem stórkostlegan og meira að segja byltingakenndan.

Ansi vel lukkað hjá fólkinu í landinu, ekki satt?

Treystu okkur Ólafur

Það er ekkert víst að minni þörf verði á kjölfestu eftir fjögur ár. Nýr forseti hefði átt að taka við 1. ágúst næstkomandi sem er trúlega að minnsta kosti mánuði áður fyrir þingkosningar og mögulega stjórnarkreppu.

Setjum sem svo að bæði forseti og Alþingi klári kjörtímabil, þá verður aftur skammt kosninga á milli eftir fjögur ár. Hver verður staðan þá? Mun barnapía þjóðarinnar sjá sig tilknúna að halda í höndina á henni?

Rétt eins og þjóðin hefur treyst Ólafi í 20 ár – og treystir enn – þá þarf hann líka að treysta þjóðinni til að standa á eigin fótum og velja sér forseta án nærveru þess sem er í embættinu.

Eða kannski komast Píratar til valda og standa við loforð um stutt þing með áherslu á fá mál eins og breytingar á stjórnarskránni. Á þeim tíma væri hægt að koma inn ákvæðum um hámarksfjölda kjörtímabila forseta og að hann þurfi að fá lágmarksfjölda atkvæða í kosningum, ellegar skuli kosið aftur milli þeirra sem flest atkvæði fengu.

Game over?

Það verður forvitnilegt að sjá nýjar skoðanakannanir en það er ljóst að erfitt verður að velta sitjandi forseta. Miðað við eldri kannanir hefði það helst verið í valdi Katrínar Jakobsdóttur sem gaf afsvar um daginn.

Andri Snær Magnason gæti fundið fyrir vaxandi fylgi. Hann er kostur þeirra sem ekki þola Ólaf, einkum af vinstri væng stjórnmálanna. Það er hins vegar erfitt að sjá hann byggja þær brýr inn á miðjuna eða til hægri sem hann þarf til að vinna.

Möguleikarnir virðast mestir fyrir kandídat sem hefur haldið sig til hlés með beinar skoðanir á stjórnmálum en hefur þekkingu á stjórnkerfi landsins. Kandídat af miðjunni sem fengið gæti fylgi hófsamari hægri manna sem telja einfaldlega komið nóg af Ólafi en er líka nógu vel þokkaður til að éta nær allt fylgið af Andra Snæ.

Þeir kandídatar eru vart fleiri en að fingur annarrar handar þurfi til að telja þá.

Að taka slaginn

Og jafnvel þótt sá kandídat sé til staðar þarf hann á tveimur mánuðum að byggja upp kosningamaskínu til að keppa við sitjandi forseta. Það verður ekki einfalt verk.

Og jafnvel, jafnvel þótt þetta sé til staðar er andstæðingurinn ein reyndasti, slægasti, klárasti og besti stjórnmálamaðurinn þjóðarinnar. Þóru Arnórsdóttur afgreiddi hann í einu útvarpsviðtali á sunnudagsmorgni fyrir fjórum árum.

Ólafur Ragnar gæti verið veikari fyrir nú. Trúlega telja fleiri kominn tíma á nýjan forseta, að rétt sé að þakka fyrir vel unnin störf. „Kjölfestan, reynslan og lausnin – það er ég“ viðhorfið ofbauð mörgum.

Í tilkynningu forsetans segir hann að ástandið sé „enn viðkvæmt, að stjórnvöld og kjörnir fulltrúar verði að vanda sig.“

Það á líka við um forseta lýðveldisins.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.