Ævintýrið um fráveitu fráleitu

Fráveitumál eru mikið hitamál víða um land fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Fljótsdalshérað er þar engin undantekning enda er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íbúa og stórar framkvæmdir fyrir hvert sveitarfélag að standa í. Fljótsdalshérað réðst í það fyrir nokkrum árum að byggja upp hreinsivirki fyrir fráveitu sem taldar voru til fyrirmyndar og eru það að mörgu leyti, svo langt sem þær ná. Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur um þennan málaflokk held ég að það sé samt rétt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hver núverandi staða er.


- Stór hluti fráveitu frá Egilsstöðum fer ekki í gegnum neitt hreinsivirki heldur rennur gegnum rotþró út í Lagarfljót í Egilsstaðavík.
- Hreinsivirkin eru fjarri því að ráða við það magn sem í gegnum þau streymir.
- Skólpmengun hefur ítrekað mælst í Eyvindará.
- Íbúar í nágrenni hreinsivirkja hafa kvartað undan ólykt frá þeim sem leggst yfir heimili þeirra og lóðir.

Íbúum á Fljótsdalshéraði hefur í mörg undanfarin ár verið sagt fallegt fráveituævintýri um það hversu hreinsivirki hér séu í góðu lagi. En það er gagnslaust að vera með góð hreinsivirki sem ekki hreinsa nema brot af frárennslinu. Það er kominn tími til að horfast í augu við það að fráveitumál á Fljótsdalshéraði eru í ólestri og það verður stórt verkefni að koma þeim í viðunandi horf. Með því að leigusamningar á þeim hreinsivirkjum sem nú eru í notkun eru að renna út er tækifæri til að vinna að lausnum frá grunni. Í þetta verkefni ætlar Framsóknarfólk að ráðast með eftirfarandi að leiðarljósi.


- Losna við hreinsistöðvar ofan í byggð og þau óþægindi sem þeim hafa fylgt.
- Tvöfalda lagnakerfi fráveitu á næstu árum, samhliða viðhaldi gatnakerfisins, og skilja þannig yfirborðs- og regnvatn frá skólpi.
- Hætta að losa fráveitu í Eyvindará, sem er vatnslítil bergvatnsá og ekki heppilegur viðtaki.
- Veita skólpi frá Egilsstöðum og Fellabæ í eina útrás, út í Lagarfljót fyrir utan þéttbýlið og hreinsa það í samræmi við lög og reglur og það sem er umhverfi og lífríki fyrir bestu.

Fráveitumál á Fljótsdalshéraði snúast ekki um meinta hagsmuni fyrirtækja, landeigenda eða um 15 ára gamlar ákvarðanir stjórnmálamanna. Það þarf að horfa til framtíðar og takast á við að bæta stöðuna með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Það ætlum við Framsóknarfólk að gera.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Framsóknar á Fljótsdalshéraði


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.