Aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga

Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða hefur verið lagt fram og bíður nú framsögu umhverfis- og auðlindaráðherra, svo að vísa megi málinu til nefndar og síðar til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi.


Þess hefur lengi verið beðið að skipulagsskylda fyrir haf- og strandsvæði yrði lögleidd og því mætti ætla að hér væri bæði um gott og þarft mál að ræða. Með hliðsjón af sívaxandi atvinnustarfsemi á sjó, s.s. í fiskeldi og ferðaþjónustu, mætti jafnframt ætla að um brýnt mál væri að ræða, en sem dæmi um þá alvarlegu vankanta sem núverandi staða hefur í för með sér má nefna, að núverandi uppbygging á fiskeldi hér við land er í engum formlegum tengslum við þau sveitarfélög sem í hlut eiga, s.s. vegna leyfisveitinga. Ástæðan er einfaldlega sú að firðir og flóar falla ekki undir skipulagsvald sveitarfélaga. Reyndar falla firðir og flóar ekki undir skipulagsvald af neinu tagi, sem er illt þegar um svo umsvifamikla atvinnuuppbyggingu er að ræða og á sér nú stað í fjörðum austan lands og vestan.

Því miður tekur frumvarpið sem bíður nú afgreiðslu alþingis ekki á þeim vandamálum sem blasa við. Í stað þess að styrkja það skipulagskerfi sem nú er til staðar og byggir á lýðræðislegum grunni sveitarstjórnarstigsins, leggur frumvarpið til að sett verði á fót alveg nýtt kerfi, sem verður drifið á grunni embættismannakerfi ráðuneytanna.

Nái frumvarp þetta fram að ganga óbreytt, verður verr af stað farið en heima setið fyrir sveitarfélög landsins, sér í lagi þau sem byggja efnahagslega afkomu og atvinnuuppbyggingu á fjörðum sínum eða flóum.

Margt fleira mætti benda á, sem vinnur gegn hagsmunum sveitarfélaga í frumvarpinu. Á heildina litið er þó alvarlegust sú aðför að sjálfstjórn þeirra og sjálfsákvörðunarrétti sem í því felst.

Í dag tóku 12 bæjar- og sveitarstjórar á Austurlandi og Vestfjörðum höndum saman og sendu umhverfis- og auðlindaráðherra harðorð mótmæli vegna frumvarpsins. Langar mig að hvetja allt áhugafólk um sveitarstjórnarmál, byggðamál og lýðræði til að kynna sér efni bréfsins.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar