Orkumálinn 2024

Að efla byggð á landsbyggðinni

Á dögunum áttu undirritaðar þess kost að sitja ráðstefnu Byggðastofnunar á Breiðdalsvík sem bar yfirskriftina: „Sókn landsbyggða. Kemur unga fólkið? Hvar liggja tækifærin?”


Ráðstefnan var um margt mjög áhugaverð ekki síst þegar horft er til hinna dreifðu byggða. Víða þarf grettistak til að skapa fjölbreytt störf til að laða að ungt fólk og ekki síður til þess að halda í unga fólkið sem nú þegar er á svæðunum.

Öflug og fjölbreytt atvinnustarfsemi um allt land er mikilvæg í efnahagslegu tilliti. Við eigum mjög verðmætt ræktunarland, nóg af vatni og við höfum þekkinguna til að nýta þau gæði. Matvælaframleiðsla hefur verið hrygglengjan í landbúnaði og atvinnustarfsemi í dreifbýlinu. Stórir hlutar láglendis okkar eru vel fallnir til ýmis konar landbúnaðarframleiðslu. Æskilegt er að þjóðin sé að mestu sjálfbær um framleiðslu matvæla.

Hvað stendur í veginum?

Hindranirnar í dreifbýli eru því miður margar þrátt fyrir áhuga fólks og tilraunir til að sækja fram í nýsköpun og þar ber helst að nefna vöntun á þriggja fasa rafmagni, betri nettengingu og tryggari og öruggari samgöngur.

Það er eitt af meginhlutverkum ríkisins í atvinnumálum að sjá til þess að stoðkerfið sem sinnir þörfum þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skerf í atvinnurekstri eða að undirbúa slíkt sé öflugt og aðgengilegt en því miður er það ekki raunin.

Stóru orðin

Núverandi ríkisstjórn hefur enn ekki, þrátt fyrir digurbarkaleg orð þar um, lagt fram framkvæmdaáætlun til næstu ára um bættar nettengingar í dreifbýli. Stjórnvöld hafa hins vegar velt miklum kostnaði af því verkefni yfir á sveitarfélögin. Það er einnig ljóst að ef ungt fólk á að setjast að í dreifbýli þá þarf skjótar umbætur í þessum efnum. Sama á við um lagningu þriggja fasa rafmagns. Það verkefni getur ekki beðið fram til ársins 2030, eins og gert er ráð fyrir í skýrslu sem unnin var fyrir iðnaðarráðuneytið árið 2008. Tækifærin í nýsköpun og fjölbreyttum störfum heima í héraði felast í því að þessir hlutir séu í lagi. Það eru þjóðhagslegir hagsmunir að reka fjölbreytt og öflugt atvinnulíf um allt land og ekki síst matvælaframleiðslu sem byggir sem allra mest á innlendum aðföngum. Með því skilum við þjóðarbúinu mestu, bæði vegna nýtingar auðlinda og þeirrar vinnu sem leggja þarf til framleiðslunnar.

Ef ekki er...

En svo við víkjum að endingu að spurningunni í upphafi greinarinnar þá má velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að snúa henni við. Hvað getum við gert fyrir unga fólkið sem nú þegar býr á landsbyggðinni?

Rannsóknir og kannanir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að tryggja innviði svo að hægt sé yfirhöfuð að byggja upp öflugt atvinnulíf og fjölbreytt samfélag á landsbyggðinni. Ef það er ekkert internet, kemur enginn. Ef samgöngur eru slakar, gefst fólk upp. Ef það er ekki nægt rafmagn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, fara þau eitthvað annað. Á meðan byggðastefna ríkisins boðar borgurum landsins jafnræði óháð búsetu þá verður ríkið jafnframt að standa við stóru orðin. Þetta hefur jú verið rætt nógu oft, nógu lengi. Tæknin er til staðar, það virðist vera til nóg af peningum, þetta er einungis spurning um forgangsröðun. Byrjum í dag.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Alþingismaður, skipar 2. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Berglind Häsler
Bóndi, matvælaframleiðandi og tónlistarmaður, skipar 6. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.